Hreyfing og heilsuvernd er einn af miðannaráföngum Menntaskólans á Tröllaskaga, MTR.
Segja má að þessi miðannaráfangi hafi byrjað með hvelli. Nemendur fengu að reyna sig í skotfimi og prófa bæði riffil og haglabyssu. Það gerðist við öruggar aðstæður á skotsvæðinu á Siglufirði undir stjórn Rögnvaldar Jónssonar og Gunnars Óskarssonar.
Hópurinn nýtti íþróttahúsið á Ólafsfirði, fór í boltaleiki og gerði ýmsar æfingar. Meðal annars voru prófaðar nýjar útfærslur á gömlum leikjum sem reyndu á ýmsa vöðva sem ekki eru í daglegri notkun ef marka má strengina sem nemendur fengu daginn eftir. Í íþróttahúsinu á Siglufirði var farið í bandý og hópurinn fékk kynningu á boccia hjá Helgu Hermannsdóttur. Keppt var í leiknum við iðkendur Snerpu, sem sýndu mikla leikni og unnu flesta leikina.
Klifur var iðkað á þar til gerðum veggjum bæði úti og inni og einnig reyndu menn sig í kassaklifri eins og sjá má á myndunum. Margir fleiri leikir voru á dagskránni og á miðvikudag var Anna Hulda Júlíusdóttir með fræðslu fyrir nemendur sem fólst í því að finna styrkleika sína. Nemendur gerðu veggspjöld sem sýna drauma þeirra um gott líf óháð peningum og stöðu.
Hópur nemenda fór í yoga hjá Erlu Jóhannsdóttir. Æfingarnar þóttu mjög erfiðar. Þær reyndu á styrk, jafnvægi, og liðleika en endað var á slökun. Annar hópur fór í crossfit hjá Guðrúnu Ósk Gestsdóttur, sem hafði heildarumsjón með miðannaráfanganum. Honum lauk með útileikjum og grillveislu í skógræktinni á Siglufirði. Myndir
Forsíðumynd: Guðrún Ósk