Hríseyjarbúðin hlaut á dögunum styrk úr verkefninu Stafrænu forskoti 2019 ásamt 5 öðrum fyrirtækjum.  Styrkirnir eru ætlaðir til að kaupa ráðgjöf við að  innleiða stafrænar lausnir hjá fyrirtækjunum sem hafa öll sótt vinnustofur Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands um stafrænan rekstur og markaðssetningu. Ingólfur Sigfússon mun verða sérlegur ráðgjafi og innan handar við vinnuna. 

Stafrænt forskot – markaðssetning á samfélagsmiðlum, er verkefni Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands sem unnið er í samstarfi við landshlutasamtök sveitarfélaga um allt land með stuðningi frá Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu í gegnum byggðaáætlun. 

Sjá nánar um verkefnið og úthlutunina hér

Einnig hefur Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra staðfest að þrjú verkefni hljóta verkefnastyrki vegna fjarvinnslustöðva sem veittir eru á grundvelli stefnumótandi byggðaáætlunar fyrir árin 2018-2024 (aðgerð B.8 – fjarvinnslustöðvar). Að þessu sinni var 24 milljónum króna úthlutað til þriggja verkefna fyrir árin 2019-2020. Þá hafa einnig verið gefin fyrirheit um styrki að heildarupphæð 55 milljónum króna til ársins 2023. Auglýst voru framlög fyrir árin 2019-2020 en heimilt er að styrkja sama verkefni til allt að fimm ára, með fyrirvara um fjárheimildir fjárlaga hvers árs.

Markmiðið með framlögum vegna fjarvinnslustöðva er annars vegar að koma opinberum gögnum á stafrænt form og hins vegar að fjölga atvinnutækifærum á landsbyggðinni.

Verkefnin þrjú sem hljóta styrk eru:

  • Skráning þinglýstra gagna í landeignaskrá. Samstarf við verkefnið Brothættar byggðir í Hrísey og Grímsey. Þjóðskrá Íslands hlýtur styrk sem nemur 9 m.kr. árið 2020 og 9 m.kr. árið 2021. Samtals 18 m.kr.
  • Gagnagrunnur sáttanefndarbóka. Rannsóknarsetur Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra, í samstarfi við Héraðsskjalasafn Skagfirðinga og Þjóðskjalasafn hlýtur styrk að upphæð 9 m.kr. á ári í þrjú ár, árin 2020-2022, og 4,6 m.kr árið 2023, samtals 31,6 m.kr. 
  • Rafræn skönnun fjölskyldumála á landsvísu. Sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra hlýtur styrk að upphæð 6 m.kr. árið 2020.

Sjá nánar um verkefnið hér