Frá sveitarstjóra.

Í þessum pistli ætla ég að tæpa á nokkrum atriðum sem kjörnir fulltrúar eru að vinna að hjá sveitarfélaginu Dalvíkurbyggð. Einhver gæti haldið að það væri lágdeyða og lítið um að vera vegna covid ástandsins í þjóðfélaginu en svo er ekki. Næg verkefni til staðar og margt spennandi í gangi.

Atvinnumála- og kynningarráð hélt í haust fyrirtækjaþing. Fengnir voru sérfræðingar með fyrirlestur um styrkjaumhverfi smærri og stærri fyrirtækja. Núna er ráðið að undirbúa ör-ráðstefnu skv. atvinnustefnu Dalvíkurbyggðar, unga fólkið heim. Stefnt er að halda þá ráðstefnu um mánaðarmótin febrúar/mars.

Byggðaráð fundar yfirleitt vikulega. Fyrir ráðið koma erindi tengd fjármálum, starfsfólki, fasteignum, framkvæmdum, umsagnir um frumvörp Alþingis svo eitthvað sé til talið. Verið er að klára vinnu við skipulagsbreytingar vegna sameiningar sviða í framkvæmdasvið. Endurskoðun húsnæðisáætlunar er í gangi og endurskoðun reglna eignasjóðs. Fyrir liggur að endurskoða samþykkt um fjárhagsáætlunarferli og reglur um viðauka svo eitthvað sé nefnt. Málefnin eru fjölmörg og fjölbreytt.

Félagsmálaráð vinnur mest að eftirfylgni við þau lögbundnu verkefni sem falla undir félagsþjónustu. Eðli mála vegna er oftast um trúnaðarmál að ræða en einnig t.d. endurskoðun reglna og stefna sem undir málaflokkinn heyra.

Fræðsluráð vinnur að endurskoðun skólastefnu. Þeirri vinnu lýkur í vor og verður innleiðing með haustinu. Vinna er hafin við skóladagatöl næsta árs og eiga þau að fara til afgreiðslu á vordögum.

Landbúnaðarráð fundar að meðaltali annan hvern mánuð og eru fundarefni fjölbreytt. T.d. búfjárhald, göngur og réttir, leiga á lendum, girðingamál, hunda- og kattahald, minnka- og refaeyðing o.fl. tengt málaflokknum.

Menningarráð fylgir eftir margvíslegum menningarverkefnum sveitarfélagsins. Á næstu dögum verður birt auglýsing um styrki til menningarmála. Úthlutun er áætluð í apríl.

Íþrótta- og æskulýðsráð er að hefja vinnu við lýðheilsustefnu Dalvíkurbyggðar. Árlegur fundur með íþróttafélögum verður haldinn á vordögum.

Ungmennaráð fundar 4-5 sinnum á ári um málefni tengd börnum og ungu fólki og ályktar þá gjarnan um þau atriði sem betur mættu fara. T.a.m. hafa íþrótta- og æskulýðsfulltrúi og starfsmenn félagsmiðstöðvarinnar unnið að gerð handbókar undanfarið og er henni ætlað að leiðbeina starfsfólki við ákvörðunartöku í erfiðum aðstæðum. Þar er t.a.m. að finna verkferla vegna eineltis og ofbeldis, viðbragð við neyslu tóbaks og áfengis sem og ýmsar viðbragðsáætlanir, t.d. vegna jarðskjálfta. Þar sem handbókin var unnin af starfsmönnum, mun Ungmennaráð fá það verkefni að rýna handbókina frá sjónarhorni ungmenna.

Umhverfisráð fylgir eftir fjölbreyttum umhverfisverkefnum en ráðið tekur núna annan hvern fund í hreina skipulagsfundi. Unnið er að endurskoðun aðalskipulagsins og eru vonir til að því ljúki á þessu ári. Alls eru 4 deiliskipulög í vinnslu: Fyrir Hauganes, Fólkvanginn í Böggvisstaðafjalli, Laugahlíðarhverfið og svo þjóðveginn í gegnum Dalvík í samstarfi við Vegagerðina. Vinna hefst á næstunni við endurskoðun á deiliskipulagi við Kirkjuveg. Til stendur að fjölga búsetukostum þar á minni eignum fyrir aldurshópinn 60 ára og eldri skv. niðurstöðum úr búsetukönnun sem gerð var í október. Þá er orðið nauðsynlegt að huga að deiliskipulagi á nýju hverfi á Dalvík en búið er að úthluta öllum rað- og parhúsalóðum sem voru lausar. Skv. aðalskipulagi verður nýtt hverfi sunnan Skógarhóla og ofan sundlaugar. Vonandi hefst vinna við það strax á næsta ári.

Veitu- og hafnaráð fylgir eftir marvíslegum verkefnum hafna, hitaveitu, vatnsveitu og fráveitu. Verið er að skoða fyllingu vegna umsóknar um seiðaeldisstöð við Árskógssand, það verkefni er samvinnuverkefni með Siglingasviði Vegagerðarinnar. Seiðaeldismálin kalla líka á undirbúning og vinnu hitaveitu og vatnsveitu. Þá verður unnið við útræsi fráveitu við Árskógssand og Hauganes í sumar. Verið er að leggja lokahönd á nýja geymsluhúsið við Sandskeið og mun það gjörbreyta aðstöðu starfsmanna við útideildir sveitarfélagsins.

Skólanefnd Tónlistarskólans á Tröllaskaga og barnaverndarnefnd eru samstarfsnefndir með Fjallabyggð. Góð vinna og gott samstarf er um þessa málaflokka.

Sveitarstjórn fundar mánaðarlega nema yfir sumartímann, þá er fullnaðarafgreiðsla mála hjá byggðaráði. Sveitarstjórn tekur til afgreiðslu bókanir frá nefndum og ráðum. Einnig eru stundum á dagskrá sérmál er varða helst stjórnsýslu sveitarfélagsins.

Nánar um störf sveitarstjórnar og kjörinna fulltrúa er að finna í samþykkt um stjórn Dalvíkurbyggðar. https://www.stjornartidindi.is/Advert.aspx?RecordID=234020aa-d7fb-4567-87fe-382e7b0d2664

Einnig má finna upplýsingar um störf fagráða í erindisbréfum þeirra sem eru samþykkt af sveitarstjórn. https://www.dalvikurbyggd.is/is/stjornsysla/stjornkerfi/erindisbref

Hér að ofan er tæpt á nokkrum þeim málum sem eru í gangi. Listinn er mjög langt frá því að vera tæmandi en gefur þó einhverja mynd af því sem verið er að vinna að þessa dagana. Ég vil hvetja íbúa til að lesa fundargerðir nefnda og ráða á heimasíðu Dalvíkurbyggðar og fylgjast þannig með því sem efst er á baugi og til umfjöllunar hverju sinni.

Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri.

Myndir/Dalvíkurbyggð