Vefmiðillinn Lifðu núna birti viðtal við hjónin Oddnýju Hervöru Jóhannsdóttur og Kristján Möller á dögunum. Þar var farið yfir hvað þau væru að gera í dag og eftir að Kristján hvarf úr kastljósi þjóðmála er hann lét af störfum á alþingi árið 2016.

Kristján L. Möller hefur verið áberandi í íslensku þjóðlífi eins og aðrir stjórnmálamenn en hefur nú snúið sér að öðru.  Kristján var alþingismaður fyrir Samfylkinguna 1999-2016 og samgönguráðherra 2007-2009 og samgöngu- og sveitastjórnaráðerra 2009-2010 en hætti á þingi við kosningarnar 2016.

Kristján er ekki mjög gamall eða 67 ára en tók ákvörðun fyrir fimm árum að nú væri nóg komið á hinum pólitíska vettvangi. „Ég er mjög ánægður með að hafa tekið þessa ákvörðun á þessum tímapunkti. Ég hafði verið í 17 ár á þingi og þar áður í 12 ár í bæjarstjórn Siglufjarðar, og í ýmiss konar félagsmálastússi frá unglingsárum.. Ég var á góðum aldri og fann að ég hafði þrek enn þá og vildi nýta það til annarra starfa. Ég komst meira að segja að því að það er til gott líf eftir pólitík,” segir Kristján og hlær

Kristján hefur haft nóg að gera frá því hann hætti á þingi og segir að strax hafi fyrirtæki haft samband við hann og óskað eftir aðstoð hans við ráðgjöf. „Ég vil nota orðið „málafylgja” sem er að fylgja málum eftir fyrir menn. Ég er svona „málafylgjumaður”, segir Kristján hæstánægður með það starfsheiti. „Þarna sáu menn sér hag í því að fá reynslu mína til að vinna málum framgang. Ég get nefnt sem dæmi þegar ferðaþjónustuaðilar á Kili höfðu samband. Þeir báðu mig að aðstoða sig við að vinna að hugmyndum þeirra við að leggja 75 kílómetra rafstreng alla leið upp á Hveravelli með viðkomu hjá öllum ferðaþjónustufyrirtækjum á leiðinni. Þetta var mjög skemmtilegt og viðamikið verkefni þar sem ég þurfti að samræma sjónarmið mjög margra. Það þurfti síðan að finna í þetta fjármagn og loka dæminu fjárhagslega. Þetta tókst og var ljómandi gaman og ekki verra að það var hægt að henda fjórum dísilrafstöðvum á þessari leið. Þar vorum við líka að vinna þarft verk til náttúruverndar. Þar með lögðust af olíuflutningar upp á þetta svæði. Þekking mín á opinbera- og einkakerfinu nýtist vel í slíkri vinnu,” segir Kristján.

Kristján og eiginkona hans Oddný Hervör Jóhannsdóttir voru með íþrótta- og tískuvöruverslun á Siglufirði sem heitir Siglósport og er enn til. Þetta var löngu áður en Kristján fór á þing en þau seldu verslunina þegar fluttu suður. Þau héldu þó eftir hluta fyrirtækisins sem þau byrjuðu á löngu áður og Oddný hélt áfram að reka þann hluta á meðan Kristján var í pólitísku vafstri en það er fyrirtækið KLM verðlaunagripir.

„Oddný rak þetta ein á meðan ég var í pólitíkinni og eftir að ég hætti þar hef ég fengið að koma inn og taka að mér verkefni undir hennar stjórn. Það felst í að svara í síma og fara með vörur til viðskiptavina eða á pósthúsið. Mér finnst ég oft vera kominn aftur í starf sem ég hafði með höndum þegar ég var 10-11 ára gamall á Siglufirði. Þá gerðist ég sendill í versluninni Ásgeir og náði þá í skottið á síldarævintýrinu, fór stundum með pantanir í skipin og hafði mög gaman af. Ég svaraði líka stundum í síma og skrifaði niður pantanir. Það gat verið einn pakki af kaffi eða sykri o.s.frv. Síðan fór ég með sendingarnar til viðskiptavinanna og fann mikið til mín. Þetta er dæmi um það hvernig lífið fer í hringi því nú er ég aftur kominn í sendlastarfið en nú hjá konunni. Stundum svara ég í símann og tek niður pantanir og fer svo með sendingarnar til viðskiptavina eða á pósthúsið og finnst þetta bara alveg ljómandi gaman,“ segir Kristján.

Grunnurinn að verðlaunagripafyrirtækinu á uppruna sinn í því að Kristján hefur alla tíð tengst íþróttum mikið en hann útskrifaðist úr Íþróttakennaraskólanum 1976. Hann segist svo hafa náð í Oddnýju þegar hann var íþróttakennari í Bolungarvík í tvö ár eftir útskrift en Oddný er þaðan. Þau fundu þetta verðlaunagripaverkefni saman og nú er Kristján kominn aftur inn. Hann segir samt brosandi frá því að auðvitað geti hann nú ekki stokkið inn umyrðalaust heldur fari hann að vilja Oddnýjar um það hvernig hún vilji að hlutirnir séu gerðir.

Kristján og Oddný keyptu æskuheimili Kristjáns á Siglufirði  2018 af móður hans. Þau hjónin og synir þeirra þrír og fjölskyldur hafa gert húsið alveg upp og eiga nú afdrep þar sem þau nýta mikið. Þau eru öll mikið íþróttafólk og Kristján er mjög ánægður með að allir, allt niður í yngsta fjölskyldumeðliminn, stunda einhverjar íþróttir. Kristján og Oddný hafa alltaf verið skíðafólk eins og flestir Siglfirðingar og nú í seinni tíð hefur golfið komið sterkt inn.

„Ég segi nú stundum að það sé sennilega dæmi um að maður er svolítið að eldast að mér þykir þægilegra að klæða mig í golffötin og -skóna en skíðagallann og -klossana,” segir Kristján og hlær. „Ef allt væri með felldu værum við líklega á Spáni í golfferð nú um páskana. En nú er stutt í sumarið og þá getum við spilað hér heima sem við gerum mikið af.“

Kristján og Oddný eiga þrjá syni og fjögur barnabörn. Eitt verkefni sem Kristján hefur haft er að skutla yngstu kynslóðinni á æfingar og nýtur þess mjög. „Þegar strákarnir okkar voru að alast upp voru skíðaæfingar á veturna, skíðamót um hverja helgi og knattspyrnumót á sumrin og svo fóru þeir að spila golf líka.”

Kristján segir að margir Siglfirðingar á miðjum aldri hafi ljósmyndun sem áhugamál. „Þannig var að á Siglufirði var mjög sterkt æskulýðsstarf og reknir margir klúbbar. Þar á meðal var ljósmyndaklúbbur með mjög öflugt starf og afraksturinn er áhugamál sem hefur lifað með mér og mörgum öðrum Siglfirðingum. Mín bíður til dæmis stór myndabunki sem ég ætla að fara að skanna inn þegar ég hef tíma,” segir Kristján sem augljóslega er ekki að setjast í helgan stein þótt stjórnmálastörfum sé lokið.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.