Hvaðan er orðatiltækið að vera í essinu sínu upprunnið? Hvaða ess er átt við?
Orðasambandið að vera í essinu sínu, ‘vera mjög vel fyrir kallaður, vera upprifinn’ er fengið að láni úr dönsku, at være i sit es. Sama orðasamband er einnig til í þýsku, in seinem Esse sein.
Hvorugkynsorðið ess er þekkt í málinu allt frá því á 17. öld í merkingunni ‘gott ástand’. Es í dönsku er talið eiga rætur að rekja til frönsku aise ‘vellíðan’og orðasambandsins être à son aise ‘líða vel, vera hress’. Ef rétt er þá má benda á að aise er sama og enska ease ‘þægindi’.
Ásgeir Blöndal Magnússon tengir ess við miðaldalatínu esse ‘vera, ástand’ (Íslensk orðsifjabók 1989:157) en fyrrnefnda tilgátan er sennilegri.
Þá vitum við það!
Mynd: Kristín Sigurjónsdóttir
Texti af vef: Vísindavefsins