Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, og Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands afhentu á Degi gegn einelti hvatningarverðlaun við hátíðlega athöfn í Hólabrekkuskóla í Breiðholti. Verðlaunin hlaut Lilja Ósk Magnúsdóttir, verkefnastjóri forvarna- og félagsmála hjá Tækniskólanum.
Dagur gegn einelti var fyrst haldinn árið 2011 til vitundarvakningar og sem hvatning til alls samfélagsins að vinna gegn einelti. Heimili og skóli sér um umsýslu dagsins. Samtökin hafa hvatt skóla til að standa fyrir fræðslu, viðburðum eða táknrænum atburðum sem hvetja til jákvæðra samskipta og efla vináttu í tilefni dagsins.
Fagráð gegn einelti hjá Menntamálastofnun valdi verðlaunahafa úr innsendum tilnefningum. Í rökstuðningi fagráðs segir:
„Lilja Ósk Magnúsdóttir er verkefnastjóri forvarna- og félagsmála hjá Tækniskólanum. Hún er einnig fræðari hjá Samtökunum ’78. Verkefnin sem hún vinnur byggjast að miklu leyti á samskiptum og fræðslu til ungs fólks og að miðla boðskap um betra samfélag og mannréttindi. Lilja Ósk er einstaklega flink að tala við fólk á jafnréttisgrundvelli. Hún leggur mikla alúð í störf sín og henni hefur tekist að uppræta fordóma og einelti af slíkri list, að samfélagið er betra samfélag, fyrir hennar störf. Samstarfsfólk hennar hjá Tækniskólanum, stærsta framhaldsskóla á Íslandi, þar sem fjölbreyttur nemendahópur stundar nám, hefur tekið eftir greinilegum áhrifum eftir að Lilja Ósk hóf störf hjá skólanum: í breyttri umræðu og hegðun nemenda, bæði í skólanum og á viðburðum Nemendasambandsins. Hún á virkilega skilið að vera heiðruð fyrir sitt framlag við að uppræta einelti og útilokun.“
Forsíðumynd/ Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands, Lilja Ósk Magnúsdóttir verðlaunahafi, Lovísa Guðrún Ólafsdóttir skólastjóri Hólabrekkuskóla og Þorvar Hafsteinsson, formaður Heimilis og skóla