– svolítið um hörku, mýkt og völdin í Fjallabyggð.

Nú í byrjun árs vakti það athygli, bæði innanbæjar og á landsvísu, að mikilvægur fundur utanríkisráðherra Finnlands og Íslands skyldi vera haldinn í Síldarminjasafninu og að um svipað leyti væru átján útskriftarnemendur Listaháskóla Íslands í hálfsmánaðar vinnu og námi hjá Aðalheiði í Alþýðuhúsinu. Þá var einnig sagt frá því hvernig Ljóðasetrið laðar til sín erlenda ferðamenn um miðjan vetur.

Í sjónvarpsþættinum „Vikan með Gísla Marteini“ 15. febr. var rætt um menningarmál og borgarbrag og upp kom spurningin „fara ekki að lifna staðir út á landi? Jú, Siglufjörður, Siglufjörður …“ (http://www.ruv.is/spila/ruv/vikan-med-gisla-marteini/20190215  – 21. mínúta)
Það er ekki bara ÓFÆRÐ og SEXTÍU KÍLÓ AF SÓLSKINI sem skapa þessa ímynd staðarins – heldur fyrrgreindar fréttir, ferðaþjónustan í heild sinni – og öll veitingahúsin! Það er ekki nóg að vera frægur ef tómahljóð er úr tunnunni!

Þessi tíðindi af menningarstöðunum siglfirsku sýna augljóslega innri styrk. Um svipað leyti kom það einnig fram að fjárhagslegur stuðningur Fjallabyggðar við Alþýðuhúsið og Ljóðasetur er afar rýr þetta árið. Það vakti að vísu ekki sömu athygli en sýnir mikinn veikleika sveitarfélagsins gagnvart þeim sterku þáttum sem halda uppi menningu staðarins og móta ásýnd samfélagsins jafnt útávið sem innávið. Og enn er þetta hallærislegra fyrir hve það stangast á við stefnu sveitarfélagsins að styrkja stoðir slíkra menningarsetra og veita þeim öflugan stuðning í hvívetna.

Það er bæjarráð sem ber ábyrgð á fyrrgreindum atriðum rétt eins og því að hafna beiðni um stuðning við fjársöfnun fyrir fátæka og bágstadda á Eyjafjarðarsvæðinu sem Rauðikrossinn og Hjálparstofnun kirkjunnar stóðu að fyrir síðustu jól.

Fyrr í vetur skrifaði ég fjóra pistla sem birtust hér á Trölli.is undir yfirskriftinni Malbik og menning. Þeir tveir fyrstu fjölluðu um menningarstefnu Fjallabyggðar. Þessir pistlar hafa farið misjafnlega í fólk eins og við mátti búast. Nú vil ég lýsa skoðunum mínum með öðrum hætti en þá – vera skýrmæltari og fjalla nokkuð umbúðalaust um málin eins og þau koma mér fyrir sjónir.

Kenning mín er sú að harðnandi viðhorf til ýmissa mála og áður óþekktur samskiptavandi hafi byrjað árið 2016.

Hér skal gerð tilraun til að skoða lauslega hvernig völdin eru meðhöndluð í Fjallabyggð og hvernig viðhorf bæjarstjórnenda til „hinna mýkri mála“ hafa farið harðnandi. Fátt er um rök því fáum sögum fer af því hvað gerist í raun kringum stjórn sveitarfélagsins – en sjónarmiðin sem ég set fram byggjast á samtölum við marga og samanburði talna. Fá dæmi eru nefnd þótt af mörgu sé að taka.

Snemma árs 2016 var ráðinn nýr bæjarstjóri til Fjallabyggðar, reyndur sveitarstjórnarmaður og pólitíkus – en jafnframt afar fyrirferðarmikill og umdeildur. Jafnvel svo umdeildur að samflokksmenn hans syðra höfðu hafnað honum sem leiðtoga sínum og bæjarstjóra, en því starfi hafði hann gegnt í allmörg ár.
Margir gagnrýndu mjög ráðningu hins nýja bæjarstjóra en samtímis urðu aðrir til að verja hana (þar á meðal undirritaður) á þeirri forsendu að það hlyti að vera mikils virði fyrir okkur að hafa hér til þjónustu vanan mann sem skildi talnakúnstir bókhalds og hefði reynslu af flóknu kerfi skylduverka og framkvæmda sveitarfélaga.

Nú er það ekki mörgum gefið að rýna í og skilja þessa hluti og gildir það ekki síður um þá sem óreyndir setjast á stóla bæjarfulltrúa. Og líklegast hefur það orðið mörgum léttir að reynslumikill og glöggur maður sæi um sem flesta þætti í rekstrinum og tæki af fólki gríðarvinnu og virkaði sem ráðgjafi fyrir hverskonar lögbundna afgreiðslu og ákvarðanatöku. Að auki hinn sívirki framkvæmdastjóri, gjörkunnugur opinberum sjóðum og framúrskarandi vel pólitískt tengdur – sem sagt góður skaffari!

(Líklega er til of mikils mælst að auk fyrrgreindra kosta væri sami maður menningarlega sinnaður og beitti sér líka á því sviði – verðum vonandi heppnari næst!)

Það sem skipti máli var það að margt breyttist með auknu afli og frumkvæði bæjarstjórans í mikilvægum málaflokkum. Hafnarbryggjan og fráveitukerfið endurnýjuð – verk sem seint verður fagnað eða þakkað nógsamlega! Því hvað er mikilvægara í heimi okkar en HAFNARBRYGGJAN?
Hrifning okkar á því sem vel er gert má hins vegar ekki verða til þess að augunum sé lokað fyrir því sem miður kann að fara.

Nú fóru nefnilega sporin fyrir suma forstöðumenn stofnana sveitarfélagsins og einnig þá sem stóðu fyrir hvers kyns menningarstarfsemi og þurftu að leita til bæjarstjórnenda með mikilvæg erindi að þyngjast verulega. Oftar en ekki var bara einum að mæta í stað bæjarráðs, tilhneigingin til aðhalds og niðurskurðar til „hinna mýkri mála“ varð æ skýrari auk þess sem viðmót allt varð stirðara en fólk átti að venjast. Kannski í þeim tilgangi að sýna hver réði?

Ýmis teikn má sem sé greina um nýja stjórnarhætti með komu bæjarstjórans að sunnan. En það er einmitt tilefni þessa pistils að skoða hvort það geti verið rétt sem margir tala um og hugsa – en fæstir leggja í að nefna mjög upphátt: að síðan þá hafi verið ákveðin tilhneiging að færa til völdin – eða hluta þeirra.

Völd „hins stóra og sterka“ hljóta að vera mjög óheppileg í litlu og lýðræðislegu samfélagi – og það hljóta allir að geta verið sammála um að bæjarstjórastóllinn megi aldrei verða valdastóll.
Ánægja áhrifamanna í bæjarpólitíkinni með bæjarstjórann, færni hans og framkvæmdagleði var hins svo mikil að hann varð hin ósýnilega miðja sem bæjarstjórnarkosningarnar 2018 virtust snúast um. Og ekki hafði fyrr verið talið upp úr kjörkössunum en það varð fyrsta morgunfrétt fjölmiðla landsins; Bæjarstjórinn endurráðinn í Fjallabyggð.

Skoðum ögn betur hvernig ofurvöldin geta birst okkur, nokkuð sem sumum kann að þykja lítilfjörlegt – en segir sína sögu.

Á þjóðhátíðarárinu 1974 var flutt í Reykjavík revían „Íslendinga-spjöll“ eftir Hrafn Gunnlaugsson og Davíð Oddsson. Í þessum spéspegli þjóðar á hátíðardegi sínum birtist leikhúsgestum hin kostulegasta persóna; kaupfélagsstjórinn í litlum ónefndum bæ. Hann allt í öllu – auk þess að stýra sjálfu kaupfélaginu, stjórnaði hann niðurskurði horgemlinga í sláturhúsinu, var sá tillögubesti í sveitarstjórn, formaður þjóðhátíðarnefndar, var kynnir á þjóðhátíðinni og hélt sjálfur hátíðarræðuna. Kaupfélagsstjórafrúin flutti síðan ávarp fjallkonunnar.

Þessi spaugilega sviðsmynd rifjaðist upp á 100 ára afmælishátíð Siglufjarðar 20. maí sl. Þá var bæjarstjóri vor formaður undirbúningsnefndar, kynnir hátíðarinnar, flutti „hátíðarræðuna“ og hefur eflaust haft hönd í bagga með hinni ábúðarmiklu „tímamótasamþykkt“ bæjarstjórnar Fjallabyggðar.

Að gamni slepptu: hvers vegna fékk hinn ágæti formaður bæjarráðs, ungur sagnfræðingur, ekki hlutverkið að halda þá RÆÐU sem hundruð Siglfirðinga, flestir langt að komnir, væntu að yrði flutt af þekkingu og myndugleika? Fjarvera forsætisráðherra vegna óveðurs afsakar ekki þessi ótrúlegu mistök.

Svipaða sögu má segja um 17. júní hátíðir í Fjallabyggð. Frá og með 2016 hefur  hátíðarræðan ávallt verið í bæjarstjórans höndum. Allt tipp topp í hátíðardagskránni og fjallkonan á sínum stað! Enginn segir neitt og allir klappa!

Í pistli hér á trolli.is, fyrir skemmstu, (https://trolli.is/a-baejarlinunni-bauladu-nu-bukolla-min/) kom fram sú skoðun að senda ætti alla bæjarfulltrúa, nefndarmenn og starfsmenn bæjarskrifstofanna á námskeið í mannlegum samskiptum og mannasiðum. Þessu er ég ekki alls kostar sammála – næstum allir þarna tel ég að séu afar kurteist og alúðlegt  fólk. En það er jafn víst að við bæjarbúar, íbúar Fjallabyggðar, verðum að gera kröfu um það að sá sem ráðinn er til æðstu þjónustu við samfélag okkar (og á hæstu launum) sýni öllum sem til hans leita á skrifstofuna sjálfsagða virðingu, kurteisi og skilning.

Á fjögurra ára fresti kjósum við fulltrúa okkar til að stjórna sveitarfélaginu.
Þeirra er að móta stefnuna og áherslurnar. Undan því eiga þeir ekki að komast. Það er síðan hlutverk bæjarstjórans og annarra starfsmanna að framfylgja og
þjóna ákvörðunum bæjarstjórnar. Ábyrgð bæjarfulltrúanna er mikil.

Um þá valdatilfærslu og samskiptavanda sem ég hef tæpt á hér í pistlinum hvílir djúp þögn. En undir yfirborðinu kraumar óánægja meðal margra. Aðrir styðja eflaust og verja sinn mann – eða sitt fólk.

Ég finn mig knúinn til að koma þessum sjónarmiðum á framfæri hér á trölli.is því ég vil búa í opnu og lýðræðislegu samfélagi þar sem það telst eðlilegt að tjá sig – jafnvel um erfiðustu mál. Að þegja er sama og að samþykkja ríkjandi ástand.

Örlygur Kristfinnsson