Neytendastofa vekur athygli á innköllun á andlitsgrímum sem hafa meðal annars verið seldar í Lyf og heilsu, Apótekaranum og Lyfju. Innflutningsaðili vörunnar hér á landi er S. Gunnbjörnsson ehf. Svo virðist sem maskarnir séu ranglega merktir fyrirtækinu 3M. Framan á umbúðum er vörunni lýst sem grímu með teygjum fyrir matvælaiðnað (á spænsku „Mascarilla con Elásticos para Industria Alimenticia“).

Vegna fyrri fréttar Neytendastofu um sömu grímur bárust stofnuninni fjöldi ábendinga um hvar grímurnar höfðu verið seldar. Þakkar stofnunin neytendum fyrir jákvæð viðbrögð. Í ljós hefur komið að grímurnar eru ætlaðar til notkunar þegar unnið er með matvæli. Gefur það til kynna að varan eigi að veita notendum vörn og flokkist þar af leiðandi sem persónuhlíf til einkanota þegar varan er seld neytendum og ætti að vera CE merkt. Andlitsgríman var ekki CE-merkt. Við skoðun á grímunum þótti þó ljóst að grímurnar veita neytendum litla sem enga vörn gegn veirum eða öðrum ögnum. Þá bárust stofnuninni engin gögn um virkni vörunnar þrátt fyrir fyrirspurnir þar um, né önnur gögn um að gríman væri framleidd af 3M. Af þeim ástæðum ákvað S. Gunnbjörnsson að innkalla grímurnar.

Neytendastofa hvetur alla sem hafa keypt andlitsgrímurnar að vera ekki að nota þær heldur að skila þeim á þann sölustað sem varan var keypt eða henda þeim.