Hefðbundnum föstum viðburðum sem tengjast jólahátíðinni í Fjallabyggð líkt og tendrun jólaljósa jólatrjánna fyrstu helgina í aðventu og árlegum jólamarkaði í Tjarnarborg hefur verið aflýst vegna samkomutakmarkana. Yngri börn leik- og grunnskóla munu þó gera sér ferð að trjánum í desember og hengja á þau jólaskraut. Áramótabrennur og flugeldasýningar verða haldnar eins og venjulega sem og á þrettándanum.
Á vefsíðu Fjallabyggðar geta þeir sem ætla að bjóða upp á dagskrá/viðburð á aðventu, skráð viðburðinn sinn í rafrænt aðventudagatal. Þannig munu bæjarbúar geta auðveldlega fylgst með öllu því sem um verður að vera í Jólabænum Fjallabyggð á aðventu.
Fjallabyggð hvetur íbúa til að nýta opnunartíma verslana og þjónustuaðila til að dreifa álaginu. Virða tveggja metra fjarlægðarmörk og nota andlitsgrímur.
