Nemendur þriggja áfanga við Menntaskólann á Tröllaskaga, í félagsfræði, tilveru og inngangi að félagsvísindum, hlýddu nýlega á fræðslufyrirlestur Þorsteins V. Einarssonar sem er meistaranemi í kynjafræði við Háskóla Íslands. Hann heldur úti vefmiðlinum “Karlmennskan” sem varð til í kjölfar samfélagsmiðla átaksins #karlmennskan í mars 2018. Karlmenn deildu undir myllumerkinu #karlmennskan reynslusögum sínum af því að hafa upplifað neikvæða pressu frá karlmennskuhugmyndum. Þar komu fram sögur um karlmenn sem skömmuðust sín fyrir að gráta við andlát barna sinna, móður eða annarra nákominna. Sögur af ofbeldi og einelti sem menn höfðu orðið fyrir í æsku fyrir að haga sér eða líta út á ákveðinn hátt o.fl. Þetta átak spratt fram í kjölfarið á #meetoo byltingu kvenna úr ýmsum starfshópum og stéttum samfélagsins.

Markmið vefmiðilsins “Karlmennskan” er að:

  • Frelsa karlmenn undan álögum karlmennskuhugmyndanna með umræðu, viðburðum og fræðslu.
  • Frelsa karlmenn undan staðalímyndunum, víkka út hugmyndina um karlmennsku og endurskilgreina hvað það þýðir að vera alvöru maður.
  • Fyrsta skrefið er að sjá álögin og afleiðingarnar til að vinna gegn þeim.

Þorsteinn fræddi nemendur um karlmennskuhugmyndir samfélagsins og hvernig þær verða ákveðinn hluti af sjálfsmynd karlmanna. Einnig brá hann upp dæmum af samfélagsmiðlum, úr kvikmyndum, fjölmiðlum og orðræðunni í samfélaginu og svaraði spurningum nemenda.

Nánari upplýsingar má sjá á vefsíðunni: karlmennskan.is/

Forsíðumynd: GK

Sjá einnig á vefsíðu MTR