Ákveðið hefur verið að breyta samþykkt um kattahald í Fjallabyggð.

Á fundi skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar var lagt fram erindi Sigurðar Ægissonar, dagsett 28. janúar 2021 þar sem óskað er eftir því að nefndin hlutist til um að lausaganga katta verði bönnuð í sveitarfélaginu á varp- og ungatímum fugla, frá 1. maí til 15. júlí.

Lausaganga katta í Fjallabyggð bönnuð á varptíma

Skiptar skoðanir hafa verið meðal íbúa vegna þessarar samþykktar og kattaeigendur ósáttir.

Í framhaldi af þessu þá hafa nokkrir kettir og manneskjurnar þeirra sett saman bréf og sent á fulltrúa bæjarstjórnar sem lesa má hér að neðan.

Við undirrituð erum íbúar í Fjallabyggð og skrifum þér í tilefni fyrirhugaðra breytinga á reglum um kattahald í Fjallabyggð. Við teljum að málið þarfnist faglegar umræðu og eins og sakir standa sé óásættanlegt að breyta gildandi reglum. Við skorum á þig að beðið sé til næsta vors með setningu nýrra reglna og opnað verði á faglega umræðu um málið og mögulegar lausnir þess. Við tökum það fram að við erum mjög sátt við núgildandi reglur um kattahald í Fjallabyggð og teljum þær til þess fallnar að stuðla að velferð dýranna. Við vonum að þú, sem kjörinn fulltrúi, gefir þér tíma til þess að lesa og íhuga eftirfarandi atriði: 

  1. Erindi Sigurðar Ægissonar, sem er kveikjan að nýjum reglum, felur ekki í sér neinn faglegan rökstuðning fyrir því að þeir fáu kettir sem eru löglega skráðir í Fjallabyggð séu slík ógn við fuglalíf staðarins að það sé nauðsynlegt að setja algert bann við lausagöngu í 13 vikur af því stutta sumri sem við njótum hér rétt við heimskautsbaug. Hver eru fagleg rök fyrir því að banna alfarið lausagöngu katta í stað þess að að fylgja eftir þeim tilmælum sem nú þegar eru í gildi hvað varðar lausagöngu þeirra á varptíma fugla? 
  2. Hver er áætlaður kostnaður við það að fylgja eftir breyttum reglum og hver verða viðurlög við brotum? Af þeim gögnum sem aðgengileg eru á vef Fjallabyggðar og af upplýsingum sem fengust á fundi með bæjarstjóra Elíasi Péturssyni 12. apríl 2021, er ekki búið að ákvarða hvernig reglunum verður fylgt eftir og hvernig verður refsað fyrir brot á þeim.  
  3. Nú þegar gilda í Fjallabyggð mjög skýrar og góðar reglur um kattahald, sem leggja ábyrgð á hendur kattareigenda að lágmarka áhrif katta á fugla á varptíma. Þessum reglum er hinsvegar ekki fylgt eftir hvað brot varðar. Hver er tilgangur þess að setja enn meira íþyngjandi reglur þegar núgildandi reglum er ekki fylgt eftir? Hér á Ólafsfirði þar sem við undirskrifuð búum er staðan sú að hér býr ógeldur, óskráður og eflaust óbólusettur og óormahreinsaður fressköttur sem því miður ræðst á gelda húsketti. Ekkert er hins vegar gert í stöðunni. Er verið að setja þessar reglur til þess að þóknast þeim aðilum sem þrýsta á breytingar í orði en ekki á borði? Væri ekki nær að byrja á því að framfylgja þeim reglum sem þegar eru í gildi áður en flóknari reglur eru settar? 
  4. Til þess að bregðast við fyrirhuguðum reglum á þann máta sem tryggir velferð dýra okkar þurfum við kattaeigendur tíma til þess að gera ráðstafanir. Ýmsir möguleikar eru í stöðunni, t.d. það að byggja við hús okkar svokallað ,,catio”. Sá fyrirvari sem okkur er gefinn er hins vegar afar naumur, í raun enginn.  Það hlýtur að vera réttlátt í svona umfangsmiklu máli að gefinn sé tími til þess að hlutaðeigendur geti brugðist við með athugasemdum og aðgerðum. 
  5. Er það bæjarfélaginu okkar sæmandi að setja reglur sem teljast stórfellt inngrip inn í líf katta og kattaeigenda og eru þar fyrir utan langt út fyrir normið hvað varðar reglur um kattahald á Íslandi án faglegs rökstuðnings? Væri ekki frekar viðeigandi að vinna með kattaeigendum að því að lágmarka þann meinta skaða sem kettir valda á fuglalífi með því t.d. að mælast til þess að kettir séu skrýddir trúðakraga og aukabjöllum yfir sumarið og sæti útgöngubanni kvölds og nætur?  Það eru margar tæknilegar lausnir til á málinu; nútíma kattalúgur gefa t.d. færi á því að takmarka útgöngutíma við eina eða fleiri klukkustundir á dag. Við kattareigendum höfum ekki bara skoðanir á málinu heldur höfum við fjölmarga möguleika á því að takmarka þann skaða sem kettirnir okkar valda. Við teljum að við höfum rétt á því að kynna þessa möguleika fyrir samfélaginu áður en gripið er til aðgerða sem gera Fjallabyggð að einu kattstrangasta samfélagi Íslands. 

Að okkar mati er þetta mál sem ætti að gefa íbúum og kattaeigendum færi á að ræða betur. Við erum viss um það að hægt sé að finna lausn sem við gætum öll sæst á en til þess þarf tíma og rými til umræðu.  Við skorum á þig að leggja það til á bæjarstjórnarfundi núna á miðvikudag að vísa málinu aftur til nefndar og frekari umræðu. Við eigum það öll skilið að ræða þessi mál á máta þar sem íbúar hafa færi á að koma sjónarmiðum og lausnum á framfæri, sama hvar við stöndum í skoðunum. 

Virðingarfyllst, 

Unnur María Máney Bergsveinsdóttir, Herra Mjá, Breki Freki, Grund (Aðalgötu 18), Ólafsfirði

Halldóra Hafdísardóttir, Kormákur Nonni, Sæbala (Kirkjuvegi 19), Ólafsfirði

Lausaganga katta í Fjallabyggð tekin fyrir að nýju

Forsíðumynd / Björn Valdimarsson