Það var veturinn 1964-65 að gerðir voru geysivinsælir útvarpsþættir sem slógu út margt það sem áður hafði heyrst.

Gera má ráð fyrir að þeir séu ógleymanlegri okkur Siglfirðingum en öðrum landsmönnum sem munum þessa tíma, og þeir sem kepptu fyrir okkar hönd voru að keppni lokinni, auðvitað settir á stall með mestu merkismönnum sem bærinn hafði alið.

Þættirnir nefndust “Kaupstaðirnir keppa” og það voru Birgir Ísleifur Gunnarsson síðar borgarstjóri í Reykjavík, og ferðafrömuðurinn Guðni Þórðarson sem yfirleitt var kallaður Guðni í Sunnu, sem stjórnuðu þáttunum. Það var svo leikarinn góðkunni Gunnar Eyjólfsson sem kynnti.

Tækni þessara ára bauð ekki upp á beinar útsendingar og framkvæmdin fór þess vegna þannig fram að þeir Birgir Ísleifur, Guðni og Gunnar ferðuðust um landið ásamt tæknimanni og tóku þættina upp, undantekningalaust fyrir fullu húsi af áheyrendum, en þeim var síðan útvarpað einhverjum dögum síðar.

Keppnin var útsláttarkeppni og kepptu kaupstaðirnir þeirri röð sem hér segir:

18. nóv. 1964 Hafnarfjörður og Kópavogur.
29. nóv. 1964  Neskaupstaður og Seyðisfjörður.
13. des. 1964 Keflavík og Vestmannaeyjar. 
3. jan . 1965 Húsavík og Siglufjörður.
17. jan. 1965 Akranes og ísafjörður.
31. jan. 1965 Akureyri og Reykjavík.
14. febr. 1965 Hafnarfjörður og Neskaupstaður.
28. febr. 1965 Ísafjörður og Vestmannaeyjar.
14. mars 1965 Akureyri og Siglufjörður.
28. mars. 1965 : Hafnarfjörður og Vestmannaeyjar.
11. apríl. 1965 Sauðárkrókur og  Siglufjörður.
2. maí. 1965 Siglufjörður og Hafnarfjörður

Ekki voru allir jafn jákvæðir fyrir þessu uppátæki og eftirfarandi grein birtist í Verkamanninum þ. 8. Jan. 1965, eða fimm dögum eftir að Siglufjörður lagði Húsavík í fyrstu umferð.

„Oft heyrist illa í útvarpinu víða um land. Oftast nær gerir það ekkert til. Það er ekki á svo margt merkilegt að hlusta. Það þarf t.d. mikið umburðarlyndi til að hlusta á hina svolölluðu keppni: Kaupstaðirnir keppa. Einhverjir greindarmenn eru teymdir upp á svið og reynt að fletta þeim upp eins og alfræðibók. Mér er óskiljanlegt að nokkur hafi gaman af að hlusta á menn svara í jafn heimskulegri barnaprófsyfirheyrslu, rétt eða rangt. Hundavaðshátturinn bæði í vali manna og sköpun spurninga er svo algjör, að þetta hlýtur að vera dauðadæmt fyrirfram. Hið eina, sem réttlætir þáttinn er það framlag, sem staðirnir miðla milli spurningakaflanna, og margt er ágætt, annað verra eins og gengur“.

Alþýðublaðið er á öðru máli þ. 22. jan. og segir að „Kaupstaðirnr keppa“ séu einn besti þátturinn sem komið hefur í útvarpinu hin síðari ár. Forvitnilegur, léttur og fróðlegur.

Það fór ekki hjá því að hlustendum hitnaði stundum svolítið í hamsi ef þeirra lið eða þeirra sveitungar fóru halloka, og þá var stundum stutt í hrepparíginn.

Í Morgunblaðinu frá 10. Mars 1965 mátti lesa eftirfarandi:
Velvakandi góður.
Mig langar að bera undir þig deilumál eða ágreiningsmál milli mín og útvarpsins, sem mér liggur nokkuð þungt á hjarta. Ég hlustaði á sunnudaginn á þáttinn „Kaupstaðirnir keppa“ og varð voða gröm yfir því að Vestmannaeyingar skyldu bera sigur úr býtum…

Síðan færir hlustandinn sem kallaði sig „hlustandi úr vesturbænum“ að sjálfsögðu gild rök fyrir sínu máli sem hann telur réttlæta hans skoðun.

Ljósmynd: Steingrímur / Ljósmyndasafn Síldarminjasafnsins.

Hið magnaða sigurlið Siglfirðinga: Frá vinstri eru Pétur Gautur Kristjánsson fulltrúi sýslumanns, Benedikt Sigurðsson kennari og Hlöðver Sigurðsson skólastjóri. Sérstaka athygli vekur auðvitað pípa Péturs sem hann skildi nánast aldrei við sig, en á þessum tíma þótti ekkert tiltökumál að reykt væri nánast hvar sem var.

Í aðdraganda keppninnar er sagt að maður nokkur hafi átt erindi við Pétur á heimili hans. Hann fannst hvergi í fyrstu, en að lokum uppgötvaðist verustaður hans með þeim hætti, að reykur sást liðast upp fyrir brúnina á risastórum bókastafla á skrifborði hans sem hann hélt sig á bak við. Mun þá Pétur hafa verið að undirbúa sig fyrir keppnina.

Þann 2. maí 1965 kl. 20.45 var svo komið að úrslitakeppninni milli Hafnfirðinga sem sigrað höfðu lið Vestmannaeyja og Siglfirðinga sem borið höfðu Sauðkræklinga ofurliði. Þar höfðu Siglfirðingar betur og sá sem þetta ritar gleymir ekki hinni rafmögnuðu spennu sem ríkti meðal bæjarbúa, enda orðinn næstum tíu ára og eyrun límdust hreinlega við útvarpið þegar þættinum var útvarpað.

Í kjölfarið fylltust bæjarbúar auðvitað stolti yfir hinum frábæra árangri sinna manna og liðsmennirnir sem staðið höfðu sig svo vel, voru auðvitað ekkert annað en hetjur í augum okkar sem heima sátum og hlustuðu spenntir á viðureignina.

Þegar þarna var komið sögu hafði Benedikt kennt mér heila þrjá vetur í Barnaskóla Siglufjarðar og ég hafði alla tíð litið mjög upp til hans sem kennara, en eftir þetta breyttist hann í huga mér í eins konar hálfguð og vitsmunaveru sem var af einhverju allt öðru kalíberi en venjulegt gat talist. Auðvitað voru hinir keppendurnir settir í sama flokk, en Benedikt var sá eini þeirra sem ég þekkti vorið 1965. Það átti svo eftir að breytast í 12 ára bekknum þegar Hlöðver kenndi okkur krökkunum og við bárum svolítið óttablandna virðingu annars vegar fyrir honum sem skólastjóra og hins vegar fyrir gáfumanninum úr sigurliðinu.

Mogginn sagði svo frá þ. 14. maí 1965:
Á SUNNUDAGSKVÖLD, 2. maí, lauk vinsælasta skemmtiþætti vetrarins: “Kaupstaðirnir keppa”. Sigruðu þá Siglfirðingar Hafnfirðinga og urðu þar með sigurvegarar í þessari keppni og hljóta í verðlaun ókeypis flugfar til og frá Höfn, svo og uppihald þar í nokkra daga.

Þessi kaupstaðakeppni er ein snjallasta hugdetta, sem þeir hafa fengið árum saman, útvarpsmenn. Hún hefur áreíðanlega glætt áhuga á útvarpinu vítt og breitt um landið, einkum meðal yngra fólks. Má þó segja, að efnið hæfði öllum aldursflokkum, sem útvarpsefni.
Ingvar Gí.

Þjóðviljinn 4. Maí 1965

Þjóðviljinn sagði líka frá úrslitunum sem var auðvitað ekkert undarlegt, því það má jafnvel halda því fram með ágætum rökum að hann hafi á vissan hátt átt sína fulltrúa í sigurliðinu.

Þjóðviljinn gerir þarna Pétur Gaut að Siglfirðingi í umsögn sinni eins og fram kemur í úrklippunni hér að ofan, og auðvitað vildum við eiga hann eftir hina frábæru frammistöðu.

Væntanlega hafa því fáir gert einhverja athugasemd við “eyrnamarkið”. Hann var þó fæddur Seyðfirðingur, en ólst upp í Stykkishólmi og Hafnarfirði. Árin hans á Siglufirði voru ekki mjög mörg, því hann var þar fulltrúi sýslumanns á árunum 1961-1966 en flytur eftir það til Vestmannaeyja.

Það merka rit Spegillinn var á þekktum nótum nokkru eftir að úrslitin lágu fyrir þegar grínast var með að Siglfirðingar hefðu unnið gáfnapróf á landsvísu.

Síldarkóngar, sem áður gengu háleitir og borubrattir um stræti og héldu landsfræg partý þegar þeir skruppu til Reykjavíkur, híma nú skjálfandi undir húsveggjum með sultardropa úr nefinu og eiga ekki einu sinni fyrir snússi, og aumkist einhver yfir þá og gefi þeim í nefið verða þeir að rífa fóðrið úr sparihattinum sínum frá velmektardögunum til að snýta sér í, því þeir eiga ekki vasaklút lengur.

Aftur á móti er menningarlíf hér með fjörugasta móti og miklu fleira ungt fólk stundar íþróttir en undanfarin sumur. Kannski var það ekki seinna vænna að síldin brygðist. Hér var öll menning farin í skítinn. Hvernig í andskotanum stendur á að síld og menning geta ekki farið saman? Hvernig var með Siglufjörð? Strax og Siglfirðingar voru lausir við síldina unnu þeir gáfnaprófið „Kaupstaðirnir keppa“ með heiðri og sóma en Austfirðingar kolféllu, enda var síldin búin að gera þá vitlausa.

Útsendingartími þáttanna var á sunnudagskvöldum, en þau voru alveg ótrúlega lengi að líða framan af. Eftir kvöldfréttirnar tók nefnilega við liður sem fór ekki vel í ungdóminn.

Píanókonsert fyrir tvö píanó, einleikur í útvarpssal, Alþýðukórinn syngur sænsk og norsk lög, Sinfóníuhljómsveit útvarpsins í Hamborg, sinfónietta seriosa eftir Jón Nordal, sónata í E-dúr, sænsk skemmtitónlist, Sinfóníuhljómsveit Íslands leikur undir stjórn sænska hljómsveitaristjórans Stigs Rybrants. Svo man ég ekki betur en einhverjir menningarpáfar töluðu stundum af ótrúlegum hroka um „æðri tónlist“ sem olli yngra fólkinu megnustu ógleði og kallaði jafnvel fram þunglyndisáhrif, en þau hurfu þó eins og dögg fyrir sólu þegar næsti dagskrárliður var kynntur. Þá var hlaupið til, hækkað í útvarpinu og sussað á alla. Það ríkti grafaþögn á heimilum landsmanna utan eitt og eitt andvarp á þeim andartökum þegar spennan fór yfir rauða strikið. Að loknum þætti kom svo spennufallið, það slaknaði á öllu og fólk fór aftur að tala.

Gera má ráð fyrir að ekki hafi margir hlustað á tíufréttir, veðurfregnir og íþróttaspjall Sigurðar Sigurðssonar sem voru næstu liðir útvarpsins lokakvöldið í litlum bæ norður við Dumbshaf, því sigurvíman hefur eflaust verið nokkra stund að renna af mönnum. En Siglfirðingar höfðu þó ekki yfirgefið þennan eina ljósvakamiðil landsins þetta kvöld, því dagskránni lauk með danslögum sem Heiðar Ástvaldsson valdi.

Aðalverðlaunin voru flugferð til Kaupmannahafnar sem voru gefin af Flugfélagi Íslands, og ástæða þótti til að taka það sérstaklega fram að miðinn gilti líka heim aftur.

Ríkisútvarpið splæsti svo þriggja daga uppihaldi ytra. Ég var þarna níu ára og Benedikt var kennarinn minn í Barnaskóla Siglufjarðar.

Mér og vafalaust öllum hinum bekkjarsystkinunum þótti því auðvitað ekki aldeilis ónýtt að mæta í tíma hjá svona landsfrægum gáfumanni.

Söguseríuna “Poppað á Sigló” og margar fleiri skemmtilegar greinar eftir Leó R. Ólason má finna hér.