Föstudaginn 13. maí mættu allir kennarar Menntaskólans á Tröllaskaga á námskeið í notkun sýndarveruleika og tölvuleikja í skólastarfi. Að auki var kennurum frá VMA, FSH og Grunnskóla Fjallabyggðar boðið að vera með svo það var mikil líf í húsinu þennan föstudag.

Leiðbeinendur voru Natalie Denk og samstarfsmaður hennar, Simon Wimmer en hún stýrir deild innan háskólans í Krems í Austurríki sem einbeitir sér að endurmenntun og upplýsingatækni í kennslu.

Kennarar MTR kynntust Natalie fyrst á ráðstefnu í Rúmeníu 2016 og hafa hitt hana tvívegis síðan á ráðstefnum og hefur síðan langað að fá hana í heimsókn og njóta sérfræðiþekkingar hennar á upplýsingatækni og ýmsum nýstárlegum kennsluaðferðum.

Þetta var skemmtilegur dagur og flestum þótti námskeiðið áhugavert og töldu sig hafa fengið hugmyndir til að nota í kennslu. Samveran var einnig mikilvæg því það er ekki oft sem kennarahópurinn er á sama stað heilan dag og svo var mjög gaman að geta boðið kollegum frá Fjallabyggð, Húsavík og Akureyri með.

Námskeiðið var styrkt af Erasmus+ eins og svo mörg endurmenntunarnámskeið sem kennarar skólans hafa notið síðustu ár.

Fleiri myndir frá námskeiðsdeginum eru hér.

Myndir/SMH