Kjúklingur í mildri chili-rjómasósu með krumpuðum kartöflum
Kjúklingur í mildri chili-rjómasósu
- 900 gr kjúklingabringur
- paprikukrydd
- salt
- 1 dós sýrður rjómi
- 1 lítill peli rjómi
- 1-2 kjúklingateningar
- 1 tsk sambal oelek (fæst t.d. í Bónus, sjá mynd hér að neðan)
- 2-3 msk chilisósa (t.d. frá Heinz, ekki sweet chilli sósa)
- salt og pipar
- ca 2 dl rifinn ostur
Krumpaðar kartöflur
- kartöflur
- ólívuolía eða önnur olía
- salt og jurtakrydd
Hitið ofninn í 200°. Sjóðið kartöflurnar með hýðinu. Skerið bringurnar í tvennt eða þrennt og leggið í eldfast mót. Kryddið með paprikukryddi og salti.
Hrærið saman í potti rjóma, sýrðum rjóma, kjúklingakrafti, chilisósu og sambal oelek og látið suðuna koma upp. Smakkið til með salti og pipar. Hellið heitri sósunni yfir kjúklinginn og setjið í ofninn í ca 20 mínútur. Stráið þá osti yfir réttinn og eldið áfram í ca 15-20 mínútur.
Þegar kartöflurnar eru soðnar er vatninu hellt af og þær lagðar á bökunarpappírsklædda ofnplötu. Þrýstið á kartöflurnar (gott er að nota botn á glasi til þess), penslið þær með olíu og kryddið með salti og jurtakryddi. Setjið kartöflurnar í ofninn þar til þær hafa fengið fallegan lit.
Uppskrift: Ljúfmeti og lekkerheit