Með lögum skal land byggja…
og þá sérstaklega í Siglufirði!

Fyrstu tveir áratugir síðustu aldar eru einnig barnæsku og unglingsár SÍLDARÆVINTÝRISINS á Siglufirði. Aldrei áður í sögu landsins hafa aðrar eins samfélagsbreytingar átt sér stað á svo stuttum tíma. Síldin dró til sín allskyns fólk úr sveitum landsins og fólk bjó þröngt á Þormóðseyrinni, oft í lélegu húsnæði, með dýr og skepnur sem nágranna.
Hér í Siglufirði og hvergi annars staðar, blandast saman á þessum árum, mölbúa hugsunarháttur fyrri alda, með nýmóðins tækni og erlendri og innlendri hugmyndafræði um viðskiptahætti, löggæslu, hreinlæti og heilbrigðismálefni almennings.

Hér skapast mikil þörf fyrir röð og reglu og nýjar reglugerðir, sem fyrir nútímafólk geta hjómað nokkuð skondnar, í mjög svo nákvæmum lýsingum á því sem er bannað, í þessum, þá ört vaxandi sögufræga síldarbæ.

Sumt minnir mann á:
Lagið um það sem er bannað!

Það má ekki pissa bakvið hurð
og ekki henda grjóti oní skurð
ekki fara í bæinn
og kaupa popp og tyggjó
og ekki nota skrúfjárn fyrir sleikjó..

En nú skulum við vinda okkur í lestur á Lögregu- og heilbrigðissamþykkt Siglufjarðarkaupstaðar frá 1920.
Heimildir er sóttar í heilmikla samantekt af blaðagreinum, sem Siglfirski sögusafnarinn, Steingrímur Kristinsson hefur tekið saman á heimildasíðum sínum og í þetta skiptið vísar hann í bæjarblaðið Fram 1920.

Það er engin þörf fyrir að myndskreyta þessa sögu, því maður veit oft ekki hvort maður á að hlægja eða gráta, yfir þeim myndum sem maður sér fyrir sér, við lestur, á t.d. þeirri refsingu sem er ætluð Siglfirskum drengjum, 14-15 ára, við brot á Lögreglusamþykkt bæjarins. Eða þegar við lesum reglugerð, um að bakarar bæjarins mega alls ekki:

Hnoða deig með fótum…


Fram – 2. október 1920 

4. árgangur 1920, 40. tölublað

Lögreglusamþykkt fyrir Siglufjarðarkaupstað 1920:

Staðfest af stjórnarráðinu, er ný- komin út eins og getið var um í síðasta blaði. Samþykktin er skipt í 12 kafla, 78 greinar alls, og verða teknar hér upp, mönnum til fróðleiks, þær greinar, er almenning varðar mestu. Samþykktin gildir frá 1. ágúst 1920

2, gr. Allir, sem fara um götur bæjarins utan gangstétta, hvort heldur eru gangandi, ríðandi, í vagni, á hjólum eða öðrum farkosti, skulu, þá er þeir mæta einhverjum eða einhver vill komast fram fyrir þá, halda sér, gripum sínum og farartækjum á vinstri helmingi akbrautarinnar…

3. gr. Á almannafæri má eigi fljúgast á, æpa, blístra eða hafa annan hávaða eða ofsalegt eða móðgandi háttalag, sem raskar allsherjarreglu eða ónáðar þá, sem um fara eða nálægt búa.

5. gr. Á fjölförnum götum, eða þar sem hætta getur af stafað, má ekki leika knattleik, paradís, feluleik, stikk eða klink, ekki gera rennibrautir, renna sér á skautum, skíðum eða sleðum eða hafa um hönd aðrar skemmtanir, eða leika, sem hindra umferðina. Lögreglan ákveður jafnan, hvaða götur þetta á við. Sömuleiðis er bannað að hanga utan í vögnum, sleðum eða á bifreiðum

6. gr. Á götum eða yfir götur eða svæði, sem almenningur fer um, má eigi skjóta með byssum eða öðrum skotvopnum, ekki kveikja í púðri, skoteldum eða nokkrum öðrum sprengiefnum og ekki kasta steinum, glerbrotum, snjókögglum, torfi, óhreinindum, vatni eða neinu öðru, er tjóni getur valdið eða óþægindum fyrir þá, er um slíka staði fara…

12, gr. Enginn má ótilkvaddur slökkva eða kveikja á götuljóskerum bæjarins
…Enginn má taka vatn úr brunahönum bæjarins eða hreyfa við þeim að neinu leyti, nema hann hafi til þess fengið leyfi slökkviliðsstjóra og umsjónarmanns vatnsveitunnar.

14. gr Hlaðnar byssur má ekki bera á götum bæjarins eða annars staðar á almannafæri. Byssur skal ávalt bera þannig að opið viti upp.

17. gr. . Eigi skal leyfilegt að setja upp sjálfsala.

18. gr. Foreldrum og öðrum hlutaðeigendum er skylt að annast um, að tilhlýðilegt eftirlit sé haft með óstálpuðum börnum, sem eru á þeirra vegum, þegar þau eru á almannafæri. Börn yngri en 12 ára mega ekki vera á almannafæri seinna en kl. 8 á tímabilinu frá 1. sept. til 14. maí og ekki seinna en kl. 10 frá 15. maí til 31. ágúst, nema þau séu í fylgd með fullorðnum.

22. gr. Nú er hús eða hluti úr húsi orðið svo hrörlegt, að hætt er við að það hrynji eða falli niður, eða það er þannig byggt, að hætt er við að járn fjúki af þaki eða veggjum, og getur lögreglustjóri þá bannað að nota húsið og boðið eiganda eða umráðamanni hússins að gera þær umbætur á því…. Sama gildir og þegar grjótgörðum, skíðgörðum eða annari girðingu sem liggur við falli...

24. gr. Þegar ís leggur á höfnina, má enginn fara út á ísinn fyrr en hann er orðinn vel heldur. Þyki lögreglustjóra ísinn eigi nógu traustur, skal hann banna alla umferð um hann.

25. gr. Eigi má kasta í höfnina eða fjöruna grjóti, möl, sandi, ösku, dauðum fiski, síld, matarleifum, fiskúrgangi né öðru slíku, og ekki skilja neitt slíkt þar eftir nema fyrir utan línu, er hafnarnefnd ákveður.

27. gr Á almannafæri má ekki ríða eða aka harðara en á hægu brokki, og þar sem mikil er umferð, gatan mjó eða farartálmi á veginum, skal aðeins fara fót fyrir fót Ríðandi menn og vagnstjórar skulu í tæka tíð gera viðvart mönnum, sem á undan þeim ganga. Eigi má ríða eða aka um gangstéttir bæjarins.

41. gr. Umferð bifreiða og bifhjóla skal EIGI leyfð um götur og vegi kaupstaðarins. Þó getur bæjarstjórnin leyft umferð flutningabifreiða.

42. gr. Þeir sem fara á reiðhjólum um götur bæjarins, skulu gæta þess, er hér segir: Á hjólum mega ekki í senn vera fleiri menn, en hjólin eru gerð fyrir. Sá, er stýrir hjólum, skal ætíð halda að minnsta kosti annari hendi um stýrið og hafa báðar fætur á stigsveifum. Enginn má flytja með sér á hjólum hluti, sem valdið geta hættu eða hindrað umferðina. Á hverjum hjólum skal vera bjalla, sem gefur hvellt hljóð, en ekki horn, og skal hjólamaður láta til hennar heyra, ef hætt er við árekstri, og ætíð áður en hann fer fyrir götuhorn eða yfir gatnamót. Á hverjum hjólum skal, þegar dimmt er, vera tendrað Ijósker, er snúi fram og lýsi fram undan sér. Ljós skal tendrað eigi síðar en á þeim tíma, sem ákveðinn er til tendrunar á götuljóskerum bæjarins.

46. gr. Skyldur er hver hundeigandi að hafa helst á hundum sínum með áletruðu Sgf. og tölu. Bæjarsjóður útvegar merkispjöldin, en lögreglustjóri afhendir þau eigendum hundanna gegn greiðslu andvirðis þeirra, sem rennur í bæjarsjóð. Hver hundur, sem ekki ber slíkt helsi eða fylgir utanbæjarmanni, er réttdræpur, ef eigandi hirðir hann ekki og greiði áfallinn kostnað innan þriggja daga eftir að hundurinn hefir verið auglýstur. Réttdræpir eru einnig þeir hundar, sem raska svefnfriði manna með gelti og spangóli á næturþeli, og skulu eigendur þeirra sæta sektum. Grimma hunda og hunda, sem hafa þann vana að ónáða menn og hræða með glefsi, urri eða gelti, eða sem eru óvenjulega stórir, ber eigendum að binda eða mýla forsvaranlega að viðlagðri sekt.

57. gr. Veitingahúsum öllum skal lokað kl. 10 á kvöldin til kl. 7 að morgni, og allir gestir, sem ekki hafa þar næturstað, skulu vera farnir út ekki seinna en kl. 10½… Samt skal félögum, sem lögreglustjóri þekkir, heimilt að halda samkvæmi og dansleik eða aðrar skemmtanir á veitingahúsum, sem eigi séu bundnar við áðurnefndan tíma

62. gr. Lögreglustjóri getur og fyrirskipað skoðun á kvikmyndum og bannað sýningu á myndum, sem hann telur skaðlegar eða siðspillandi. Án leyfis lögreglustjóra má ekki kveikja skotelda eða ganga með logandi blys.

63. gr. Á almannafæri má enginn fleygja hræjum, rusli eða öðrum óhreinindum, í ræsi má eigi kasta neinu því, er stíflað getur vatnsrásina. Sorpi, slori, ösku eða öðrum óhreinindum má eigi kasta í fjöruna né út af bryggjum eða bólvirkjum nema fyrir utan línu, er hafnarnefnd ákveður.

66. gr. Skepnum má ekki slátra á eða við götur bæjarins eða á almannafæri, heldur skal það gert bak við hús, innan grinda eða á lokuðu svæði, þar sem aðrar skepnur geta ekki séð blóðvöllinn. Bannað er að láta hunda koma á blóðvöllinn þegar slátrað er,

68. gr. Sorphauga, áburðarhauga, salerni, forir eða því um líkt má eigi hafa í nánd við almannafæri nema í steinlímdum gryfjum, vandlega byrgðum, enda veitti heilbrigðisnefnd samþykki til þess.

72. gr. Polla, síki eða tjarnir á leigðum lóðum kaupstaðarins, sem óhollusta stafar af að áliti heilbrigðisnefndar, er lóðareigendum skylt að fylla upp og þurrka eftir nánari ákvæðum heilbrigðisnefndar.

74. gr. Brot gegn samþykt þessari varða sektum allt að 1000 krónum. Drengir 14 til 15 ára skulu sæta vandarhöggum, þó ekki fleiri en fimmtán, ef þeir gera sig seka í brotum á samþykkt þessari eða gera eitthvað sem ber vott um einstaka ónáttúrueða sæta einföldu fangelsi allt að 8 dögum.


Klonedyke Norðursins og Sódóma Íslands = Siglufjörður!

Þessi gömlu “lýsingar orð” um ástandið og orðróm Siglufjarðar á Íslandi á þessum árum, vísa í einhverskonar samlíkingu í Ameríkanska laglausa gullgrafara stemmingu, með tilheyrandi ósómalegum lifnaði bæjarbúa.
Hér skulum við hafa í huga að margt og mikið byggist á áróðri frá broddborgurum og stór bændum landsins, sem hér missa frá sér mikið af sínum ódýra vinnufólki, í fjörð, sem býður alvöru peningalaun í lófa verkafólks.

Meira að segja í útlöndum lifa þessar ýktu lýsingar af “ástandinu á Siglufirði” lengi eins og sjá má í þessari sænsku blaðagrein frá 1943. En þar eru sagðar sögur frá Sigló, frá tímabilinu um 1910 til 1943.

Þessi grein um Siglufjörð virðist vera einskonar samtíningur úr eldri sögusögnum um „Sódómu Norðursins“ og Klondyke síldarinnar, með sögum frá því fyrir fyrri heimsstyrjöld og síðan farið yfir í lýsingar á hinum háþróaða síldveiði samfélagi sem er hér til staðar 1943. Ég tel víst að greinarhöfundurinn A.K. Magnusson hafi nú ekki verið á staðnum í miðju stríði sumarið 1943 og ekkert er sagt um þann samtíning á ljósmyndum sem fylgir þessari skemmtilegu opnugrein.

Sjá meira hér:

Síldarsaga frá 1943: Silfur hafsins í Klonedyke Norðursins

Heilbrigðissamþykkt fyrir Siglufjarðarkaupstað 1920

Fram – 9. október 1920 

4. árgangur 1920, 41. tölublað

Samþ. þessi er staðfest af stjórnarráðinu jafnhliða lögreglusamþ. er birtist í seinasta blaði, og er tekið hér hið helzta úr henni.

1. gr. Samþykktin gildir fyrir land jarðanna Hvanneyrar og Hafnar í Siglufirði.

5. gr. Ef heilbrigðisnefndin telur nauðsynlega einhverja þrifnaðarbót eða heilbrigðisráðstöfun, sem hefir í för með sér útgjöld úr bæjarsjóði, þá skal hún leggja mál það fyrir bæjarstjórn… Þó getur nefndin látið gera bráðnauðsynlegar þrifnaðarbætur án fengins samþykkis bæjarstjórnar, ef brýna nauðsyn ber til að þær séu gerðar tafarlaust, svo sem þá er hættuleg farsótt allt í einu kemur upp í bænum.

6. gr. Nú býr eigandi ekki í húsi sínu, og skal hann þá fela einhverjum fullveðja manni, er í húsinu býr, að vera húsráðandi; skal húsráðandi gegna öllum skyldum eftir samþykkt þessari með tilliti til húseignarinnar, sem annars hvíla á eigenda. Eigandi skal tilkynna heilbrigðisnefnd hver sé húsráðandi.

7. gr. Eldhússkólp, þvottaskólp og önnur óhreinindi má ekki láta síga í jörð svo nærri íbúðarhúsum að hætta sé á því, að jarðvegurinn undir húsunum saurgist, síst þar sem kjallarar eru undir húsum; öllu því skolpi, sem ekki er borið í sjó, skal veita í burtu frá húsunum í opnum eða lokuðum ræsum, svo langt, sem heilbrigðisnefnd þykir þurfa. Öll skolpræsi skulu vera svo víð og hallajöfn, að hvergi flói út úr þeim og hvergi komi pollur eða vilpur; skal hreinsa þau svo oft, að ekki leggi ódaun úr þeim.

8. gr. Ef ræsi er gert fram með alfaravegi á opinberan kostnað, skulu þeir, er hús eiga fram með veginum, skyldir að gera skolpræsi hver frá sínu húsi út í göturæsið, á þann hátt, er heilbrigðisnefnd telur hentugast.

9. gr. Meðan ekki eru komin upp í kaupstaðnum regluleg slátrunarhús, skal heilbrigðisnefndin hafa eftirlit með slátrun og kjötsölu, Slátrun skal fara fram á hreinlegum stað. Slátrarar skulu vera í hreinum fötum með ermar brettar upp fyrir olnboga. Þeir skulu ávalt vera hreinir um hendurnar. Menn, sem hafa útbrot á höndum eða ganga með einhvern næman sjúkdóm, mega ekki vera slátrarar. Hundar mega ekki vera nálægt slátrun. Sullum skal safna í sérstakt ílát og brennast eða grafast í jörðu niður. Kjöt af sjálfdauðum skepnum eða veikum má ekki selja til manneldis.

10. gr. Búpening má ekki hafa í sama húsi og íbúð handa mönnum. Ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi getur þó heilbrigðisnefndin veitt leyfi til þess að skepnur séu hafðar í kjallara.

11. gr. Ef einhver vill reisa peningshús eða gera for, haugstæði eða haughús, þá skal hann gera heilbrigðisnefnd aðvart áður en hann byrjar verkið, og skal hún gæta þess, að haldin séu fyrirmæli þau, er hér fara á eftir. Ekkert peningshús má setja nær vatnsbóli en 15 álnir, fjós má ekki setja nær íbúðarhúsi eða alfaravegi en nemi 10 álnum. For má ekki gera og ekki hafa haug nær íbúðarhúsi eða alfaravegi en nemi 10 álnum og ekki nær vatnsbóli en 15 álnum. Forarveggir skulu jafnan ná ¼ alin eða meir upp úr jörðu, og skal hafa yfir hverri for sterkan hlera, svo að örugt sé um að menn eða skepnur geti ekki fallið í forina. Ef hús standa þétt saman, getur heilbrigðisnefnd bannað mykjuhauga og haughús og heimtað að forir séu gerðar úr höggnu grjóti og steinlími eða steinsteypu, svo að þær séu vatnsheldar, bæði botn og veggir.

12. gr. Ef peningshús, haugstæði eða forir, sem eldri eru en þessi samþykkt, valda miklum óþrifnaði, má heilbrigðisnefnd beita fyrirmælum undanfarandi greinar, en heimilt er þó eiganda að skjóta fyrirskipun nefndarinnar innan 8 daga undir úrskurð bæjarstjórnar, sem gefur úrskurð í málinu svo fljótt, sem verða má.

13. gr. Þá er hús er reist til íbúðar, skal jafnan um leið reisa salerni og skal það ekki vera nær dyrum, gluggum eða vindaugum á húsinu en nemi 15 álnum; þó getur heilbrigðisnefnd veitt undanþágu frá þessu, ef sérstakar ástæður mæla með því. Gólfið í salerninu skal vera steinsteypt og hærra en jarðvegurinn í kring. Hafa skal í salerninu saurkagga vel vatnsheldan, og skal hann ná fast upp að setunni. Heilbrigðisnefnd getur leyft að hafa salerni innanhúss í sérstökum klefa, ef útigluggi á hjörum er á klefanum og að öðru leyti svo um salernið búið, sem heilbrigðisnefnd telur fullnægjandi. Ef vatnsheld for er gerð hjá húsinu, má hafa salerni yfir forinni, þannig að saurindin fari beina leið í hana.

15. gr. Ef engin salerni fylgja þeim húsum, sem eldri eru en þessi samþykkt, eða þau ein, sem illa eru gerð eða mikill óþrifnaður er að, þá getur heilbrigðisnefnd heimtað af húseigendum að þeir geri ný salerni á þann hátt, er segir í 13, gr. 16. gr. Hver húseigandi á kaupstaðarlóðinni skal láta útbúa, innan 1. maí n. k., sorpkassa með loki. Sorpkassar skulu vera vatnsheldir og skal í þá safna öllu sorpi og ösku, er til fellur frá húsinu. Allt sorp skal svo flutt í sjó norður fyrir Siglufjarðareyri nema heilbrigðisnefnd kveði öðru vísi á. Hver lóðareigandi skal láta hreinsa af lóð sinni allt rusl og sorp, strax og snjó leysir af lóðinni. Ef út af bregður getur heilbrigðisnefnd látið framkvæma verkið á kostnað lóðareiganda.

17. gr. Það er skylda sjómanna að fleygja öllu slori í sjóinn svo út taki, fyrir utan þá línu, sem hafnarnefnd ákveður, ef því er ekki safnað í gryfjur á þeim stöðum, sem heilbrigðisnefnd leyfir. Útgerðarmenn og skipstjórar bera ábyrgð á því að þessu sé hlýtt.

18. gr. Ef einhverskonar óhreinindi safnast kring um hús manna svo að fýlu leggur af, eða daunillt rennsli fer út á alfaraveg eða inn á eignir þeirra, er næstir búa, þá getur heilbrigðisnefnd skipað hlutaðeigandi húsráðanda að flytja burtu óhreinindin tafarlaust.

19. gr. Í kaupstaðnum má enginn reka nokkurn þann iðnað sem óhollusta fylgir eða óþrifnaður, t. d. lýsisbræðslu og sútun, nema heilbrigðisnefnd veiti leyfi til. Skal allur slíkur iðnaður vera háður eftirliti heilbrigðisnefndar og fyrirmælum hennar, að því er hreinlæti snertir, bæði utan húss og innan.

20. gr. Heilbrigðisnefnd skal hafa gát á öllum brauðgerðarhúsum, og eru bakarar skyldir að hlýða fyrirmælum hennar að því er hreinlæti snertir.

21. gr. Öll tóbaksnautn er bönnuð í brauðgerðarhúsum. Enginn má sofa í stofum, er hafðar eru til brauðgerðar. Brauðgerðarmenn skulu hafa yst klæða hvítar yfirhafnir, er ávalt séu hreinar, þeir skulu þvo höfuð sitt og hendur áður en þeir taka til verka, og ekki mega þeir þvo sér í vinnustofunni.
Deig má ekki hnoða með fótum. Þeir menn mega ekki vinna að brauðgerð, sem lungnatæring hafa, eða annan næman sjúkdóm, eða opin sár eða útbrot á höndum eða handleggjum.

22. gr. Heilbrigðisnefnd skal hafa gát á því að ekki sé höfð á boðstólum matvara sem skaðleg er fyrir heilsu manna. Nefndinni er heimilt að taka í búðum og öðrum sölustöðum, fyrir gangverð, sýnishorn af hverri matvöru þeirri, er hún telur líkur til að skemmd sé og skaðleg fyrir heilsu manna og rannsaka hana Heilbrigðisnefnd getur bannað matvælasölu, ef sölustaðurinn virðist óhæfur vegna óþrifnaðar. . . . ,

23. gr. Öll þau hús, sem leigð eru til íbúðar, þar með taldar sjóbúðir, skulu vera svo gerð, að unnt sé að halda þeim hreinum; gluggar skulu vera á hjörum, að minnsta kosti einn í hverju herbergi og trégólf í öllum íverustofum

24. gr. Ef íbúðarhús er svo illa gert eða hrörlegt eða þröngt, að heilbrigðisnefnd álítur hættulegt fyrir heilsu manna að búa í því, þá getur nefndin bannað íbúðina

25. gr. Bannað er að taka kjallara til íbúðar án leyfis heilbrigðisnefndar

26. gr. Heilbrigðisnefndin skal hafa eftirlit með samkomuhúsum í bænum og sjá um að þau séu ræstuð hvenær sem hún álítur þess þörf, og af þeim, sem hún telur til þess færa, og sjá um að í slíkum húsum séu jafnan nægilega mörg hrákagögn. Vilji eigendur eða notendur ekki sætta sig við álit heilbrigðisnefndar, geta þeir leitað álits héraðslæknis, sem þá ræður úrslitum.

27. gr. Heilbrigðisnefnd skal skoða öll skólahús og skólastofur, hvort heldur eru opinber eign eða einstakra manna, að minnsta kosti tvisvar á ári, í byrjun skólaársins og á því miðju, Hver sá er tekur til kennslu 10 börn eða fleiri er skyldur að tilkynna heilbrigðisnefnd hvar hann ætlar að kenna.

30. gr. Heilbrigðisnefnd, í samráði við sóttvarnarnefnd gengst sérstaklega fyrir því að lögskipuðum vörnum sé haldið uppi gegn næmum sjúkdómum. Ef upp kemur alvarlegur, næmur sjúkdómur á því svæði, er samþykktin nær yfir eða í grenndinni, þá er heilbrigðisnefnd heimilt að setja um stundarsakir strangari fyrirmæli en í samþykkt þessari felast, um hreinlæti utan húss og innan, burtflutning á óhreinindum o. s. frv.

32. gr. Ef menn brjóta þessa samþykkt eða vanrækja að framkvæma á settum fresti nokkra þá fyrirskipun, er heilbrigðisnefnd setur samkvæmt henni, þá varðar það allt að 200 kr. sekt, er rennur í bæjarsjóð.

Samþykkt þessi öðlast gildi 1. ágúst 1920.


 


Höfundur samantektar:
Jón Ólafur Björgvinsson 
Í góðri samvinnu við Siglfirska sögumanninn:
Steingrím Kristinsson

Sjá meira söguefni eftir sama höfund hér:
https://trolli.is/author/nonni/

Forsíðu ljósmynd o.fl.:
Ljósmyndari er óþekktur.
ATH. Endurvinnsla á myndgæðum með gervigreind: Steingrímur Kristinsson.
Allar ljósmyndir eru birtar með leyfi frá Ljósmyndasafni Siglufjarðar.
Vísað er í heimildir sem koma að mestu leyti frá  tímarit.is.