Jón Valgeir Baldursson skipar 5. sæti H-Listans í Fjallabyggð..
“Ég er 49 ára, fæddist í Ólafsfirði og hef búið hér alla mína tíð. Eiginkona mín er Hrönn Gylfadóttir sjúkraliði saman eigum við 3 börn, Ágúst Örn 26 ára, Ívan Darri 24 ára og Sunna Karen 20 ára, einnig eigum við orðið 1 barnabarn og búum við í Ólafsfirði ásamt heimilishundinum Ringo.
Við fjölskyldan eigum nokkrar kindur og uni ég mér mjög vel í sveitinni, ég hef mikinn áhuga á útiveru, ferðalögum og notum við hjónin hvert tækifæri sem við fáum til að fara af stað með hjólhýsið okkar. Samvera með fjölskyldunni og vinum skipar mjög stóran sess í mínu lífi.
Ég var til sjós á Sigurbjörgu Óf-1 í 16 ár en ákvað svo að söðla um og koma í land. Í dag er ég pípulagningameistari, er með verslunarpróf og með EMT-Basic menntun í sjúkraflutningum. Við hjónin eigum og rekum fyrirtækið JVB-Pípulagnir ehf. hérna í Fjallabyggð. Ég er í slökkviliði Fjallabyggðar, starfaði í nokkur ár sem sjúkraflutningamaður, hef verið í björgunarsveitinni Tind til margra ára og var þar með umsjón með flugeldasölunni til margra ára.
Á núverandi kjörtímabili hef ég verið aðalmaður í bæjarstjórn Fjallabyggðar, fyrir hönd minnihlutans, aðalmaður í bæjarráði og öldungaráði.
Ég er með mikinn áhuga á málefnum Fjallabyggðar til mynda:
Umhverfismálin, finnst vanta að átak verði gert í Fjallabyggð í fegrun umhverfisins, flotta miðbæjarkjarna beggja megin, að gera opin svæði í Fjallabyggð fjölskylduvænni, m.a. með því að bæta útlit þeirra t.d. með fallegu grasi og flottum göngustígum ásamt því fjölga bekkjum, borðum og leiktækjum, reyna að gera umhverfið aðlaðandi til þess að það verði hvatning fyrir fólk að skella sér út og njóta og stuðla þar með að almennri lýðheilsu. Mikið og flott starf hefur verið á undanförnum árum í gerð göngustíga út fyrir bæjarkjarnanna, og til þess að gera gott betra þá tel ég að það sé kominn tími til að skoða það að fara að gera flotta hjólastíga hérna í Fjallabyggð, það fellur vel við það að vera lýðheilsueflandi samfélag.
Uppbygging í atvinnumálum, m.a. með því að leggja grunninn að því að hér komist á fót einhver framleiðslufyrirtæki, finna hvatningu fyrir því að einstaklingar og fyrirtæki sjái hag í að fara að byggja hér húsnæði. Hef mjög mikinn áhuga á því að ná hingað störfum á staðsetningar, að sveitarfélagið beiti sér fyrir því að þau störf verði auglýst hér í Fjallabyggð. Styðja við atvinnulífið í Fjallabyggð.
Samgöngumál hérna í kringum Fjallabyggð hafa verið og eru mér mjög hugleikin, sérstaklega að koma jarðgöngum beggja vegna Fjallabyggðar á áætlun hjá Ríkinu.
Vinna að markvissri stefnumótun varðandi uppbygging og viðhaldi á íþróttamannvirkjum í Fjallabyggð víðast hvar komin brýn þörf á því og að í kjölfarið verði sett upp áætlun um að vinna að uppbyggingunni, tel að þannig verði hægt að flýta fyrir viðhaldi og framkvæmdum. Auka stuðninginn við íþrótta-og tómstundastarf í Fjallabyggð.
Huga vel að málefnum eldri borgara, öryrkja og fatlaðra í Fjallabyggð.
Markaðssetja Fjallabyggð sem fjölskylduvænt samfélag.
Ég hef mikinn áhuga á að almenn heilbrigðisþjónusta í Fjallabyggð sé ásættanleg, ég hef í gegnum tíðina háð baráttu fyrir tilvist sjúkrabíls í Ólafsfirði og hef verið að nota hvert tækifæri sem ég fæ til þess að reyna að ræða við ráðamenn í þeim málefnum.
Setjum x við H!
Jón Valgeir Baldursson
H-Listinn—fyrir heildina”.