Fimmtudaginn næstkomandi, 29. febrúar, hefst fundaröð Læknafélags Íslands þar sem tæpt verður á ýmsum brýnum málefnum sem tengjast heilbrigðismálum á Íslandi. Fundaröðinni hefur verið gefið heitið Læknisráð og verða haldnir fjórir fundir í fyrstu atrennu sem stendur fram á sumar.

Í félaginu eru tæplega 1.600 læknar sem starfa á Íslandi og skiptast þeir í fjögur aðildarfélög, auk fjölmargra sérgreinafélaga. Tilgangur Læknafélagsins er m.a. að vinna að framgangi íslenskrar læknastéttar sem og beita sér fyrir bættri heilsu landsmanna.

Fundaröðin er liður í þessu og verður hún haldin í sal félagsins að Hlíðasmára 8 í Kópavogi og eru áhugasamir velkomnir á meðan húsrúm leyfir. Hægt verður að horfa á beint streymi frá fundinum á vefsvæði félagsins, www.lis.is. Fundurinn hefst kl. 17:00. Gert er ráð fyrir að hann taki u.þ.b. einn og hálfan tíma. Gestir geta gætt sér á kaffi og kleinum á meðan á fundi stendur.

Málefnin sem verða tekin fyrir endurspegla þjóðfélagsumræðuna í heilbrigðismálum hverju sinni og munu tveir til þrír læknar og aðrir sérfræðingar flytja stutt erindi og sitja svo fyrir svörum. Það er von félagsins að með þessari fundaröð takist læknum að varpa ljósi á þau málefni sem brenna hvað heitast á fólki hverju sinni.

Ópíóíðafaraldur
Fyrsta málefnið snýr að  forvörnum og verður sérstaklega fjallað um ópíóíða og ópíóíðafaraldurinn sem skekur nú heiminn og hefur einnig sett sitt mark á Ísland. Valgerður Rúnarsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga forstjóri Vogs og Erna Gunnþórsdóttir læknir á Vogi munu flytja stutt erindi og svara síðan spurningum úr sal. Fundarstjóri verður fjölmiðlakonan, rithöfundurinn og háskólakennarinn Sirrý Arnardóttir.

Næsti fundur fundaraðarinnar Læknisráð er fyrirhugaður 14. mars og verður málefni þess fundar kynnt þegar nær dregur.

Fundur Læknafélags Íslands 29. febrúar hefst klukkan 17:00 og lýkur eigi síðar en klukkan 19:00. Fundarstaður er salur Læknafélags Íslands á 4. hæð í Hlíðarsmára 8 í Kópavogi, gengið inn vinstra megin við Hraðlestina. Kaffi og kleinur eru í boði fyrir gesti og fundurinn er opinn á meðan húsrúm leyfir.

Hér er hlekkur á viðburðinn á Facebook síðu Læknafélags Íslands.

Mynd/pixabay