Trölli.is fær sendan launaseðil öryrkja mánaðarlega. Hér er hægt að sjá svart á hvítu þann blákalda raunveruleika sem öryrkjar á Íslandi búa við.

Í þetta sinn sendi öryrkinn þessar línur með launaseðlinum.


“Nú er tím­inn hugsa vel hvert um annað,“ sagði Katrín Jakobsdóttir

Það hefur verið rætt mikið um mikilvægi mannslífa og að verja manns­líf að undanförnu í þjóðfélaginu eins og von er á þessum myrku tímum.

Forsætisráðherra allra landsmanna Katrín Jakobsdóttir nefndi í ávarpi sínu til þjóðarinnar á dögunum meðal annars “. Það veit sá einn sem reynt hef­ur að vera at­vinnu­laus hvað það er erfitt og lam­andi. Það er ekki ein­göngu efna­hags­legt áfall, held­ur get­ur það verið sál­rænt og lík­am­legt. Ábyrgð okk­ar stjórn­valda er að styðja enn bet­ur við fólk í erfiðum aðstæðum. Og það mun­um við gera. Því nú er tím­inn hugsa vel hvert um annað,“ sagði Katrín jafn­framt. 

það er hræðilegt til þess að hugsa að svo margir séu atvinnulausir eða við það að missa atvinnuna og auðvitað á að styðja vel við bakið á fólki á þessum erfiðu tímum.

Það hefur sýnt sig að það er til nægt fjármagn til að styðja við bakið á fólki og fyrirtækjum, einnig okurfyrirtækjum sem hafa verið að borga sér milljarða í arðgreiðslur!

Launaseðill fyrir apríl 2020. Hægt er að smella á mynd til að sjá hana stærri.


Fá á sig stimpil ómaga í boði stjórnvalda

En aftur að okkur öryrkjum. Það er mjög mikið áfall að verða fyrir skerðingu á starfsorku og oftast í leiðinni skerðingu á lífs- og leikgleði.

Að sitja uppi með ævarandi örorku vegna slyss í blóma lífsins og geta enga björg sér veitt, fá á sig stimpil ómaga í boði stjórnvalda sem hefur síðan áhrif á viðhorfs almennings er sú mesta lífskerðing sem hugsast getur.

Það býður upp á að lenda í sárri fátækt ár eftir ár í boði ríkisstjórnarinnar og er mannvonska á hæsta stigi. Að finna fyrir þessum fordómum af hendi þeirra sem baðar sig í þessum orðum “Ábyrgð okk­ar stjórn­valda er að styðja enn bet­ur við fólk í erfiðum aðstæðum. Og það mun­um við gera. Því nú er tím­inn hugsa vel hvert um annað” Er sárara en tárum taki.


Sjá eldri fréttir: LAUNASEÐILL ÖRYRKJA