Sólveig Lea er þrítug tónlistarkona frá Dalvík sem notar listamannsnafnið Lea.

Í lok júlí gaf hún út lagið Wish We Were There Now, sem er þriðja lagið af komandi EP plötu og er nú í spilun á FM Trölla – í rólegu deildinni sem heyrist á virkum síðkvöldum.

Lea, sem samdi bæði lag og texta, segir um verkið:

“Laginu má lýsa sem kraftmikilli og mjög tilfinningaríkri píanó ballöðu þar sem ég er að syrgja það sem var og textinn segir nánar frá því. Ég samdi lagið út frá geggjuðu sólsetri í september í fyrra og var þá bara að fara eftir mínum tilfinningum á þeim tíma sem yfirtóku allt. Ég ætlaði aldrei að semja væmið ástarlag en þetta kom svo náttúrulega frá mér að það varð að fá að vera með á plötunni. Það var hann Stefán Örn Gunnlaugsson sem var pródúserinn í þessu lagi og Adam Murtomaa masteraði. 

Ég fer annars út um víðan völl hvað varðar stíl, mér finnst gaman að prófa mismunandi stíla en held mig vanalega mest við draumkennt electro popp eða 80’s electro popp. Það sem er á döfinni hjá mér er að klára EP plötuna og gefa hana út og planið er svo að halda útgáfutónleika þegar platan hefur litið dagsins ljós.”

Wish We Were There Now á Spotify

Mynd: aðsend