Líkamsárás sem starfsmaður Matvælastofnunar varð fyrir í eftirliti hefur verið kærð til lögreglu. Við komu á eftirlitsstað hrinti viðkomandi aðili starfsmanni stofnunarinnar og barði í höfuð og herðar með plastíláti.
Matvælastofnun hefur ítrekað haft afskipti af hundahaldi mannsins, en tilefni heimsóknar var hins vegar eftirlit með nágrönnum hans. Tveir aðrir starfsmenn stofnunarinnar voru viðstaddir árásina ásamt lögreglumanni sem var með í för vegna fyrri reynslu stofnunarinnar af viðkomandi aðila. Gripu þeir inn í atburðarás og voru meiðsli eftirlitsmanns stofnunarinnar ekki alvarleg.
Í almennum hegningarlögum segir að hver sá sem ræðst með ofbeldi eða hótunum um ofbeldi á opinberan starfsmann þegar hann er að gegna skyldustarfi sínu eða sem á sama hátt leitast við að hindra framkvæmd slíks starfs skal sæta fangelsi allt að 6 árum. Jafnframt segir að beita megi sektum ef brot er smáfellt.
Allt ofbeldi eða hótanir um ofbeldi í garð starfsmanna Matvælastofnunar verður kært til lögreglu.
Sjá einnig vef mast.is