Í Menntaskólanum á Tröllaskaga hefur myndast skemmtileg hefð þar sem boðið er upp á allskonar listsýningar frá listamönnum í Fjallabyggð. Listamaður mánaðarins er að þessu sinni Kolbrún Símonardóttir þar sem hún sýnir listilega gerð bútasaumsverk.

Kolbrún er fædd í Fljótum en fluttist til Siglufjarðar 15 ára að aldri. Hún hefur frá unga aldri teiknað, málað, saumað, skorið út í við, unnið gler tekið ljósmyndir og ritað ljóð svo eitthvað sér nefnt. Þegar Kolbrún varð fimmtug fór hún að fást við bútasaum og hefur sinnt þeirri listgrein síðan.

Fallegu bútasaumsverkin Kolbrúnar prýða veggi MTR

 

Bútasaumsverk Kolbrúnar hafa verið á sýningum hérlendis sem erlendis t.d. á Norðurlöndum, í Bretlandi og Kanada.

Kolbrún jurtalitar einnig íslenska ull og nær fram ýmsum töfrandi litum. Hún rekur Gallerí Imbu á Siglufirði þar sem hún sýnir og selur handverk sitt.

.

 

Frétt og myndir: Kristín Sigurjónsdóttir