Ljóðasetur Íslands hlaut styrk að upphæð kr. 906.000 fyrir barnamenningu á Ljóðasetri Íslands í samstarfi við Fjallabyggð, Umf. Glóa, Kómedíuleikhúsið og hljómsveitina Ástarpunga.
Ljóðasetrið virkjar börn í Fjallabyggð í sumar til ýmissa skapandi verka m.a. með ljóða- og sögugerð, grímugerð, söng og listaverkasmíð. Í boði verða vikulegir viðburðir fyrir börn á aldrinum 5 – 12 ára, auk þess sem farið verður í samstaf við Ungmennafélagið Glóa um skapandi verkefnið Ævintýravikur, þar sem listin verður fléttuð saman við fjöru- og skógarferðir.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Lilja D. Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, tilkynntu þann 29. maí á degi barnsins, um úthlutun styrkja úr Barnamenningarsjóði Íslands. Alls hljóta 34 verkefni styrk að þessu sinni en heildarfjárhæð styrkja nemur 92 milljónum króna. Er þetta í fjórða sinn sem styrkjum er úthlutað úr sjóðnum.
Tilkynnt var um úthlutun styrkja við hátíðlega athöfn í Skála Alþingis. Forsætisráðherra og menningar- og viðskiptaráðherra fluttu ávörp og Drengjakór Reykjavíkur flutti tónlistaratriði.
Alls bárust 106 umsóknir og nam heildarfjárhæðin sem sótt var um rúmum 380 milljónum króna. Þriggja manna fagráð fjallaði um umsóknir og samþykkti forsætisráðherra tillögur stjórnar Barnamenningarsjóðs um úthlutun styrkja.
Í rökstuðningi fagráðsins segir að umsóknirnar sem bárust beri fagurt vitni ástríðu og hugmyndaauðgi þeirra sem sinna skapandi störfum með börnum og í þágu barna. Þar eru á ferðinni fagmenn og frumkvöðlar sem sinna flóknum verkefnunum af djúpri þekkingu og einlægri sköpunargleði.
Barnamenningarsjóður Íslands var stofnaður í tilefni aldarafmælis fullveldis Íslands árið 2018. Hlutverk sjóðsins er að fjármagna og styðja við fjölbreytta starfsemi á sviði barnamenningar með áherslu á sköpun, listir og virka þátttöku barna í menningarlífi.
Yfirlit yfir úthlutun styrkja úr Barnamenningarsjóði 2022