8 milljónir skjala birtar í stafrænu pósthólfi

Á síðasta ári voru samþykkt lög um stafrænt pósthólf í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda. Með þeim er fest í sessi sýn stjórnvalda um að meginboðleið samskipta við einstaklinga og lögaðila verði stafræn og miðlæg á einum stað, gegnum stafrænt pósthólf á Ísland.is.

Unnin hefur verið áætlun um innleiðingu stafræna pósthólfsins fyrir stofnanir sem miðar að því að árið 2025 geti einstaklingar og fyrirtæki nálgast öll helstu gögn frá hinu opinbera í pósthólfinu. Markmið laga um stafrænt pósthólf er að bæta opinbera þjónustu, auka gegnsæi við meðferð mála og tryggja örugga leið til að miðla gögnum til einstaklinga og fyrirtækja. Innleiðing laganna mun að auki hafa jákvæð áhrif á umhverfið þar sem stafræn samskipti krefjast hvorki pappírsnotkunar né ferða á milli staða.

Nokkrir aðilar hafa nú þegar hafið birtingu gagna í pósthólfinu og á nýliðnu ári voru birt þar um 8 milljónir skjala. Fjársýsla ríkisins, Reykjavíkurborg, Tryggingastofnun, lögreglustjóraembættin og Þjóðskrá eru dæmi um aðila sem nú þegar birta gögn í pósthólfinu. Dæmi um slík gögn eru launaseðlar opinberra starfsmanna, greiðsluyfirlit, sektarboð, álagningarseðlar og fasteignamat.

Á fyrsta innleiðingarárinu verður í forgangi að ljúka innleiðingu með þeim sem nú þegar hafa hafið birtingu í stafræna pósthólfinu. Jafnframt verður horft til þess að hefja innleiðingu hjá þeim aðilum sem eru tilbúnir til að tengjast stafræna pósthólfinu og þurfa að senda mikið magn gagna frá sér til einstaklinga og fyrirtækja.

Á árunum 2023 og 2024 er gert ráð fyrir að röð stofnana í innleiðingu fylgi annars vegar skiptingu þeirra niður á ráðuneyti en hins vegar skiptingu sveitarfélaga eftir landshlutum.

Stafrænt Ísland hefur yfirumsjón með innleiðingu stafræna pósthólfsins í samvinnu við ráðuneyti, stofnanir og sveitarfélög. Hlutverk Stafræns Íslands er að verkstýra innleiðingunni samkvæmt innleiðingaráætlun, veita ráðgjöf við tæknilega vinnu við að tengja upplýsingakerfi aðila við stafræna pósthólfið og leiðbeina aðilum varðandi notkun pósthólfsins. Hver aðili ber hins vegar ábyrgð á að forgangsraða sínu efni til birtingar í stafræna pósthólfinu ásamt innri vinnu við að koma efninu til birtingar.

Pósthólfið er aðgengilegt á Mínum síðum á Ísland.is og þá er væntanlegt app fyrir Ísland.is þar sem einnig verður unnt að nálgast pósthólfið.


Skoða á vef Stjórnarráðsins