Löglegt og siðlegt?
Þegar lagt var upp með að skoða stöðu menningarmála hér í bæ hafði ég, undirritaður, í huga að taka mið af tvennu: Menningarstefnu Fjallabyggðar og úthlutunum úr Samfélags- og menningarsjóðnum nýja. Ætlunin var að taka þetta til umfjöllunar síðasta sumar en eftir rækilega umhugsun varð að ráði að sleppa þessu bara – afskrifa það!
En svo birtist þessi gullvæga tenging milli orðanna MALBIKS og MENNINGAR hér á fréttasíðunni! Og fyrirsögnin tilbúin! og þá var ekki lengur hægt að standast mátið.
Eitt leiðir af öðru og í miðjum pælingum fór ég að velta því fyrir mér hvort óskyldur aðili gæti ráðstafað og umbreytt sjálfstæðum Menningarsjóði Sparisjóðsins – menningarsjóði sem hafði eigin kennitölu og skipulagsskrá? Hvernig fór þetta fram, var ferlið opið og gegnsætt? Af hverju mátti ekki fela þessu löglega félagi með löglegri stjórn að ljúka erindi sínu?
Rétt er að rifja upp að Arion banki yfirtók AFL sparisjóð (fyrrum Sparisjóður Siglufjarðar og Sparisjóður Skagafjarðar) árið 2015 og yfirtók samtímis og lagði niður Menningarsjóð Sparisjóðs Siglufjarðar sem svo hafði heitið alla tíð (þrátt fyrir AFL sparisjóða-samrunann).
Nú hófst leit að skipulagsskránni frá 2003 og með góðra manna hjálp var hún grafin upp hjá Fyrirtækjaskrá RSK. Hér má sjá hvernig stofnun og skipulagi Menningarsjóðsins var háttað. Þar vekur helst athygli 5. grein skrárinnar:
5. gr.
Eingöngu aðalfundur Sparisjóðs Siglufjarðar getur breytt skipulagsskrá þessari eða lagt sjóðinn niður. Verði sjóðurinn lagður niður ráðstafar aðalfundurinn eignum hans.
Og nú fara að vakna fleiri spurningar:
Var löglega staðið að yfirtöku Arion banka á Menningarsjóði Sparisjóðs Siglufjarðar?
Var það löglegt að Arion banki hrifsaði til sín sjálfstæðan og löglegan sjóð og umbreytti honum í eitthvað annað en skipulagsskrá hans sagði fyrir um?
Komu stjórnendur Fjallabyggðar, bæjarstjóri, bæjarráð eða hluti þess að þessari umbreytingu sjóðsins? Var eitthvað skráð um hvernig málin voru rædd og þróuð í það sem varð – er einhver fundargerð til?
Arion banki skuldar okkur að sýna það og sanna að allur þessi gjörningur hafi verið löglegur – og ef svo var má spyrja: Var þetta siðlegt?
Svara er vænst og geti Arion banki ekki gert fullnægjandi grein fyrir máli sínu þá hlýtur að vakna sú spurning hvort hann sé ekki skyldugur að endurreisa og skila okkur aftur Menningarsjóði Sparisjóðs Siglufjarðar?
Örlygur Kristfinnsson