• 3 stórir þroskaðir bananar
  • 1/2 bolli (115 g) smjör, brætt
  • 3/4 bolli (145 g) ljós púðursykur
  • 1 stórt egg
  • 1 tsk vanilludropar
  • 1 tsk matarsódi
  • 1/4 tsk salt
  • 1 bolli (130 g) plús 1/4 bolli (35 g) hveiti
  • 1/2 tsk kanill
  • 1/4 bolli (20 g) kakó
  • 3/4 bolli (130 g) súkkulaðidropar (eða hakkað súkkulaði)

Hitið ofn í 180° og smyrjið formkökuform.

Bræðið smjörið og stappið bananana saman við það. Hrærið púðursykri, eggi, vanilludropum, matarsóda og salti saman við. Bætið 1 bolla (130 g) af hveiti saman við og hrærið snögglega saman við deigið.

Setjið helminginn af deiginu í aðra skál (þarf ekki að vera nákvæmt mál en helmingurinn af deiginu er um 365 g, veltur þó á stærðinni á bónununum). Hrærið því sem eftir var af hveitinu  ásamt kanilnum saman við annan helming deigsins. Hrærið kakó og súkkulaðibitum saman við hinn helming deigsins.

Setjið stórar doppur af deigunum í botninn á forminu (það getur verið gott að miða við að setja einn lit í miðjuna á forminu og hinn sitt hvoru megin við). Setjið næsta lag af deigi þannig að ljóst deig fari yfir dökkt deig og öfugt. Endurtakið þar til allt deigið er komið í formið. Notið smjörhníf eða spaða til að blanda deiginu örlítið saman (það getur verið gott að miða við að gera áttur með hnífnum á tveim til þrem stöðum – passið að gera ekki of mikið!).

Bakið kökuna í 55-65 mínútur eða þar til prjónn sem hefur verið stungið í kökuna kemur hreinn upp (það má þó gera ráð fyrir að það komi brætt súkkulaði á hann). Látið kökuna standa í forminu í smá stund áður en hún er tekin úr því.


Uppskrift: Ljúfmeti og lekkerheit