Undanfarnar vikur og mánuði hafa útsendingar FM Trölla í Skagafirði legið niðri vegna bilunar.

Í fyrstu var talið að ástæðan væri breytingar á netsambandi í húsnæðinu sem hýsir sendibúnað FM Trölla í Skagafirði, og voru menn búnir að skoða ýmislegt, spá og spekúlera en allt kom fyrir ekki.

Það var heldur ekki til að hjálpa að tæknistjóri FM Trölla er erlendis, hvar hann býr stóran hluta úr ári og komst því ekki sjálfur á staðinn, heldur reyndi að leiðbeina aðstöðarmönnum við að finna út hvað væri að netsambandinu.

Svo var loks fenginn sérfræðingur frá Tengli ehf til að ganga í málið af þekkingu og krafti til að finna út hvað væri að og laga það.

Þá kom í ljós að ekkert var að netsambandinu eins og menn höfðu talið víst, heldur var rafmagnssnúra sú sem flytur rafmagn í tölvu sem sér um að koma hljóði í sendinn, var í sundur.

Mynd: Shutterstock

Líklegast þykir að mús – trúlega af skagfirskum músaættum þar sem mýs fara hægt yfir – hafi nagað í sundur snúruna, en þar sem aðeins einn vír af þremur í snúrunni var skemmdur er líklegt að músinni hafi ekki orðið meint af.

Nú er búið að gera við og FM Trölli farinn að hljóma aftur um Skagafjörðinn fagra.

FM Trölli sendir Skagfirðingum nær og fjær bestu kveðjur, og mun ekki erfa þetta við músina.