Menningarhelgi 6-7. mars 2021

Helgina 6. – 7. mars næstkomandi verða þrír menningarviðburðir á dagskrá í Alþýðuhúsinu á Siglufirði. Vegna sóttvarna eru gestir beðnir um að skrá sig á tónleikana og sunnudagskaffið í síma 865-5091 til að tryggja sér sæti.


Davíð Örn – Mynd: Samuela Heil

Laugardaginn 6. mars kl. 14.00 – 17.00
opnar Davíð Örn Halldórsson sýningu í Kompunni, Alþýðuhúsinu á Siglufirði sem ber yfirskriftina Ást við fyrstu sýn (aftur).

Sýningin er opin daglega kl. 14.00 – 17.00 og stendur til 21. mars.


Hljómsveitin Steinalda

Laugardaginn 6. mars kl. 20.00
flytur hljómsveitin Steinalda kammerverkið Stígur hún við stokkinn – óður til Landvættanna eftir Guðmund Stein Gunnarsson.

Hljómsveitina skipa Þórunn Björnsdóttir – Blístra, Steinunn Vala Pálsdóttir – Pípa, Ásthildur Ákadóttir – Hljómbyrði, Óskar Magnússon – Strengir, Páll Ivan frá Eiðum – Slagbrandur og Andrés Þór Þorvarðarson – Höggormur.


Ostar

Sunnudaginn 7. mars kl. 14.30
verður Stefanía Hjördís Leifsdóttir bóndi á Brúnastöðum í Fljótum með erindi á Sunnudagskaffi með skapandi fólki í Alþýðuhúsinu á Siglufirði.

Hún mun fjalla um búskapinn á býlinu og nýsköpun. Boðið verður uppá ostasmakk og annað góðgæti með kaffinu.


Kompan – Davíð Örn segir um sýninguna.
Sextán ný verk og þau eru öll væmin. Mín væmni er rómantík af því að ég segi það og þið verðið að segja mér ef þið eruð sammála. Ást við fyrstu sýn á við um efniviðinn, staðinn, fólkið og verkin.

Davíð Örn Halldórsson (f. 1976) býr og starfar í Stuttgart, Þýskalandi. Davíð hefur mestmegnis unnið við málverk síðan hann útskrifaðist af myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2002. Hann hefur unnið með óhefðbundnar málunaraðferðir; málað og spreyjað með mismunandi málningu á fundna hluti, viðarplötur, póstkort, húsgögn. Fyrri verk Davíðs Arnar hafa oft samanstaðið af máluðum innsetningum.

Verk Davíðs Arnar byggjast yfirleitt á tilviljunum úr hversdagslífinu. Þau eru persónuleg úrvinnsla úr umhverfi hans sem hann varpar fram í myndmáli sem vísar með beinum og óbeinum hætti í listasöguna. Bakgrunnur Davíðs Arnar í grafík er einnig sjáanlegur í verkum hans sem efnislegur grunnur sem hann byggir list sína á.

Davíð Örn hefur haldið fjölda einkasýninga og tekið þátt í samsýningum hér á Íslandi og víða erlendis. Hann árið 2014 hlaut hann hin virta Carnegie Art Award styrk í flokki ungra listamanna.


Tónleikar – Steinalda.
Stígur hún við stokkinn – óður til landvættanna er umfangsmikil tónsmíð fyrir 6 hljóðfæri eftir tónskáldið Guðmund Stein Gunnarsson. Það vinnur með tilraunakennda hreyfinótnaskrift á tölvuskjá, sambland hefðbundinna hljóðfæra og fundinnaa hluta. Hlutir úr endurvinnslu tunnunni fá ný hlutverk við hliðina á fínum hljóðfærum, fornum hljóðfærum og rafgervlum. Verkið vinnur jafnframt með fornar tónstillingar úr smiðju Pýþagórasar. Þannig mætast fræði Einars Pálssonar og tilraunatónlist. Áhugi höfundar á rímnakveðskap er sjaldan langt í burtu líkt og í óperunni Einvaldsóður sem byggir á samnefndu ljóði skagfirska 17. aldar skáldsins sr. Guðmundar Erlendssonar. Einnig ritaði Guðmundur nótur fyrir ritið Segulbönd Iðunnar og sækir því gjarnan í Siglufjörð sem er orðinn nokkurs konar miðpunktur þjóðlagatónlistar á Íslandi.


Sunnudagskaffi með skapandi fólki – Stefanía Hjördís Leifsdóttir.
Stefanía Hjördís býr á Brúnastöðum í Fljótum. Þar rekur hún ásamt manni sínum, Jóhannesi Ríkharðssyni og fjórum börnum bú með fjölbreyttri starfsemi. Þar er stunduð sauðfjárrækt, geitfjárrækt, skógrækt og ferðajónusta, auk þess sem þau hafa rekið fósturheimili um margra ára skeið. Auk þess hafa þau um langan tíma tekið á móti grænlenskum verknemum sem koma til að leggja stund á sauðfjárrækt. Nýlega er búið að taka í notkun matarsmiðju á býlinu þar sem unnið verður úr þeim afurðum sem þau framleiða, s.s geita- og sauðaostur, reykt og grafið kjöt ásamt mörgu fleira. Markmiðið er að samþætta rekstur ferðaþjónustunnar og matarsmiðjunnar með því að bjóða uppá matarkynningar í anda Slow food og Slow trawel.




Aðsent.