Frá mánudeginum 26.10 til föstudagsins 30.10 mun Grunnskóli Húnaþings vestra vinna verkefni sem heitir Menningarmót.

Það er aðferð hugsuð til þess að varpa ljósi á styrkleika og fjölbreytta menningarheima nemenda. Verkefnið hefur verið unnið á Íslandi og í Danmörku árum saman – og nú er komið að því að það lendi hjá okkur

Á vefsíðu skólans segir “Við höldum Menningarmót í skólanum föstudaginn 30.10 þar sem nemendur sýna hverjir öðrum afraksturinn. Vinnunni verður miðlað með myndböndum og myndum til foreldra og á heimasíðu. Við munum við vinna með menningarhugtakið og skoða leiðir til að miðla lífi og menningu okkar til annarra. Verkefnið er skapandi leið til að vinna með heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna nr. 4.7 sem tengist meðal annars alheimsvitund og viðurkenningu á fjölbreyttri menningu. Samhliða verður uppbrot á stundaskrá alla vikuna þar sem nemendur fara í fjölþættar vinnustofur en skóladagurinn byrjar og endar hjá umsjónarkennurum.

Á Menningarmótum fá þátttakendur tækifæri til að hittast og kynna sína persónulegu menningu á skemmtilegan hátt og í hvetjandi umhverfi. Ekki er endilega um að ræða að miðla þjóðmenningu eða upprunamenningu heldur er markmiðið að nemendurnir varpi ljósi á það sem skiptir þau mestu máli eða vekur áhuga þeirra. Allir í hópnum eru bæði þátttakendur og áhorfendur.

Við hvetjum nemendurna til að nota margskonar tjáningarform á Menningarmótinu þar sem allir fá sitt eigið svæði.

Verkefnið þarf að undirbúa bæði heima og í skólanum og er ferlið jafn mikilvægt og mótið sjálft. Við viljum meðal annars biðja ykkur um að aðstoða barnið ykkar við að búa til tímalínu með mikilvægum atburðum í lífi og sögu þeirra. Allir nemendur þurfa að koma með box sem nota má sem fjársjóðskistu. Það getur verið skókassi, kassi undan morgunkorni eða annað sambærilegt sem hægt verður að vinna með, mála og skreyta.

Með því að horfa á þetta myndband er hægt að kynnast markmiðum verkefnisins nánar og fá innblástur”. 

Sjá nánar á heimasíðunni www.menningarmot.is