Nú er sá árstími á Íslandi að miðnætursólin er sem fegurst og fátt gleður augað meira.

Miðnætursól einkennir hughrif margra af íslensku sumri og margur ljósmyndarinn fer út og fangar fegurðina.

Ingvar Erlingsson tók þessar fallegu myndir af miðnætursólinni og sumrinu á Siglufirði, sumar myndirnar eru teknar með dróna sem gerir sjónarhornið magnað.

Hægt er að smella á myndir til að sjá þær stærri.

Vísindavefurinn segir meðal annars um miðnætursólina. “Miðnætursól (e. midnight sun) er þegar sólin er á lofti á miðnætti samkvæmt sólartíma, það er að segja þegar hún er lægst. Með öðrum orðum sest sólin þá ekki í að minnsta kosti sólarhring. Þetta getur gerst bæði mjög norðarlega og mjög sunnarlega á jörðinni, þegar sumar er á viðkomandi stað.

Umræða um þetta og skilgreining á því er venjulega miðuð við að athugandi sé við sjávarmál. – Andstæðan við miðnætursól er heimskautanótt (e. polar night) sem verður þegar sólin kemur ekki upp í heilan sólarhring eða meira. Orsök miðnætursólar og annarra fyrirbæra sem tengjast árstíðaskiptum er möndulhalli jarðar (e. axial tilt og fleiri orð). Ef möndullinn væri hornréttur á brautarsléttu (e. orbital plane) jarðar væru dagur og nótt jafnlöng allt árið og hæð hádegissólar mundi ekki heldur breytast.

Á pólunum yrði sólin þá alltaf við sjónbaug. Sjá nánar um þetta á Wikipediu undir axial tilt. Þar er meðal annars sagt frá því hvernig möndulhallinn breytist hægt og hægt með tímanum. Á norðurhveli jarðar er dagurinn lengstur á sumrin á sumarsólstöðum (summer solstice) sem eru á ákveðnum tíma á hverju ári, á bilinu 20.-22. júní.

Myndir: Ingvar Erlingsson