Um Hvítasunnuhelgina verður mikið um dýrðir í Alþýðuhúsinu á Siglufirði og eru allir velkomnir.

Laugardaginn 4. júní kl. 14.00 opnar Níels Hafstein sýninguna Brennuvargar 2022 í Kompunni Alþýðuhúsinu á Siglufirði.
Sýningin er opin daglega frá kl. 14.00 – 17.00 til 19. júní. 

Brennuvargar 2022 

Mazonite, eldspýtnastokkar og trélím
Ljósmynd af gosi, Harpa Björnsdóttir

Á sýningunni eru skúlptúrar úr eldspýtnastokkum og ljósmynd af eldgosinu í Fagradalsfjalli 2021. Í hugum brennuvarga er fátt eins niðurlægjandi og eldar sem þeir kveikja ekki sjálfir og geta verið stoltir af og öðlast frægð fyrir. Þeir annað hvort lamast og stara örvæntingarfullir í glæðurnar og gasmóðuna sem erta nasirnar eða körlunum rís hold svo skarp að þeir kveinka sér.

Níels Hafstein hefur verið brautryðjandi í íslensku myndlistarlífi allt frá því hann lauk námi 1973, hann var um árabil formaður Myndhöggvarafélagsins í Reykjavík og hafði frumkvæði að því að
Nýlistasafnið var stofnað 1978, hann var formaður þess í 10 ár, einnig ritari og safnvörður. Hann sat í safnráði og innkaupanefnd Listasafns Íslands á árunum 1991-1994 þar sem hann rétti hlut kvenna, þá var hann prófdómari við Listaháskóla Íslands á fyrstu árum hans. Hann var annar af stofnendum Safnasafnsins 1995 og hefur stjórnað því síðan. Þar hefur hann lagt áherslu á að oma listamönnum sem vinna á sjálfsprottinn hátt á framfæri og tengja þá við listsköpun sem á sér auðsæjar hliðstæður á meðal lærðra listamanna. Í því felst að meðal sýnenda í safninu er listafólk sem glímir við erfiðar áskoranir í daglegu lífi, hughvörf og aðra geðveilu, fjölfötlun, þroskahömlun og einhverfu. Níels Hafstein hefur hannað rými og sýningargögn, skrifað í blöð, tímarit og sýnisbækur og komið fram með fjölmargar nýjungar um inntak og útlit sýninga.

Sunnudaginn 5. júní verða hjónin listrænu, Íris Ólöf Sigurjónsdóttir og Hjörleifur Hjartarson með sunnudags kvöldkaffi kl. 20.30 – 21.30  undir dagskrárliðnum Sunnudagskaffi með skapandi fólki. 

Boðið verður upp á kaffiveitingar. 

Íris er textíllistakona og vakti athygli á hönnunarmars í Reykjavík á dögunum með jakka sem hún hannaði og saumaði upp úr ókláruðu veggteppi sem amma hennar lét eftir sig. Íris hefur með sér jakkann, ræðir um hann, vinnuferlið og list sína almennt. Hjörleifur er rithöfundur og sviðslistamaður. Hann mun m.a. segja frá leikritinu „Njála á hundavaði“ sem hann skrifaði og gengur nú um stundir fyrir fullu húsi í Borgarleikhúsinu. Þá munu þau Íris og Hjörleifur slá á létta strengi og syngja nokkur lög sér og öðrum til hugarhægðar.