Spurning er hvort hin nýja og glæsilega bifreið Lögreglunnar á Norðurlandi vestra hefur eitthvað með þessa fjölgun að gera. Sjá frétt frá því í vor á Trölla.is: Eins gott að keyra á löglegum hraða

þann 13. júlí birtist þessi frétt í Húnahorninu. Það sem af er ári hefur reglulega verið sagt frá því í fréttum að kærur og sektir vegna hraðaksturs á Norðurlandi vestra hafi fjölgað mikið. Morgunblaðið fjallaði um málið og þar kemur fram að útgefnar kærur á árinu voru í þann 13. júní alls 3.689 talsins, samanborið við 1.417 á sama tíma fyrir ári og 602 árið 2016. Rætt er við Stefán Vagn Stefánsson, yfirlögregluþjón, sem segir þetta vera háar tölur í öllu samhengi.

Hann segir segir að eftir hækkanir sektarfjárhæða í vor fari Íslendingar sér hægar en áður en meirihluti ökumanna sem er stöðvaður séu útlendingar, sem hreinlega þekki ekki hverjar sektirnar eru. Hann segir markvissari fræðslu nauðsynlega um hvaða reglur gildi í umferðinni á Íslandi.

Umferðareftirlit hefur alltaf verið áherslumál hjá lögreglunni á Norðurlandi vestra og kemur þar til að hringvegurinn liggur þvert í gegnum varðsvæðið. Umferðarslysin á svæðinu öllu eru nú orðin 55 en voru á sama tíma fyrir ári 63 sem er um 14% fækkun. Árið 2016 voru slysin um miðjan júlí orðin 82 og fækkunin síðan þá miðað við daginn í dag er alls 33%, að því er fram kemur í Morgunblaðinu.

„Auðvitað má nálgast þessar tölur á ýmsa vegu og fá alls konar niðurstöður. En færri slys eru auðvitað sú niðurstaða sem mestu skiptir fyrir alla,“ segir Stefán Vagn sem í liði sínu er með sautján lögreglumenn og sjö bíla.

 

Mynd af vef: Lögreglunnar á Norðurlandi vestra
Frétt: Húnahornið