Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, og Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, skrifuðu í gær undir viljayfirlýsingu við bandaríska fyrirtækið EarthGrid um möguleika á notkun svokallaðrar kyndilborunar við fjölbreytt verkefni á Íslandi. Meðal þeirra verkefna sem talin eru upp í viljayfirlýsingunni eru jarðgöng fyrir umferð og lagnagöng fyrir vatnsveitur og rafveitur.
Mikil framþróun er fyrirsjáanleg í jarðgangagerð í heiminum með tilkomu svokallaðra kyndilborunartækni (e. plasma tunnel-boring technology). Í stað þess að bora og sprengja með hefðbundnum hætti eru fyrirtæki að byrja að nýta kyndilbora sem bræða bergið. Hagræðið við þessa aðferð er mikið og er talið að á sólarhring sé hægt að bræða allt að einum kílómetra sem er mun meira en hægt er með hefðbundnum aðferðum. Kostnaður við þessa aðferð er einnig mun minni en talið er að kostnaður sé allt að helmingi minni en við þekkjum í dag. Kyndilborinn er knúinn áfram af raforku.
Tækniþróunin er hröð og hefjast kyndilboranir fyrir lagnagöng í Bandaríkjunum fyrir lok árs. Lagnagöng eru fyrst á dagskrá en búist er við því að jarðgöng fyrir umferð ökutækja verði boruð á næstu árum.
„Það liggur fyrir gríðarleg þörf fyrir fjölmörg jarðgöng eins og kemur fram í tillögu að nýrri samgönguáætlun. Ný tækni við jarðgangagerð getur verið mjög dýrmæt í þeirri miklu uppbyggingu sem framundan er. Það er sérstaklega ánægjulegt að skrifa undir þessa viljayfirlýsingu í Eyjum í dag,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra.
„Það eru mikil tækifæri í því fólgin fyrir okkur Íslendinga að nýta tækniþróun og nýsköpun til uppbyggingar innviða og það er von mín að þessi aðferð geti komið að góðum notum í þeim stóru verkefnum sem við blasa,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis,- orku- og loftslagsráðherra.