Mikill vindur og gríðalegir vindstrengir hafa verið á Siglufirði í gær og nótt og viðbúið að svo verði áfram, fram eftir degi og til kvölds.

Í gærkvöldi skemmdist hús við Aðalgötu í einni vindhviðunni þegar þak hússins fór af að stórum hluta með þeim afleiðinum að brak dreifðist um stórt svæði. Tjón hlaust á nærliggjandi húsum og mannvirkjum og þurfti meðal annars að rýma eitt hús.

Vegna þess er umferð um Aðalgötu á Siglufirði, frá Vetrarbraut, lokað fyrir umferð þar til búið er að tryggja svæðið. Einnig er lokað fyrir umferð um bifreiðastæði við skrifstofu Ramma á hafnarsvæðinu. Opnað verður aftur fyrir umferð um leið og svæðið verður tryggt.

Öll tiltæk björgunartæki björgunarsveita á svæðinu, slökkviliðs og lögreglu hafa verið notuð við lokanir í nótt. Þá hafa björgunarsveitarmenn verið á ferðinni um bæinn til að lágmarka foktjón á öðrum stöðum.

Mynd/Lögreglan á Norðurlandi eystra