Rannsóknaskipið Árni Friðriksson er komið heim eftir að hafa lokið þátttöku í árlegum uppsjávarvistkerfisleiðangri í Norðurhöfum að sumarlagi (IESSNS, International Ecosystem Summer Survey in the Nordic Seas) sem hófst 1. júlí.
Í leiðangri Árna kringum landið hafa verið teknar 65 togstöðvar og sigldar um 5400 sjómílur eða 10 þúsund km. Þá voru gerðar sjómælingar og teknir átuháfar á flestum togstöðvunum.
Árni rannsakaði útbreiðslu og þéttleika makríls, síldar og kolmunna í íslenskri landhelgi fyrir norðan, norðaustan og sunna landið meðan að Færeyingar dekkuðu íslensku lögsöguna fyrir austan land og Grænlendingar fyrir vestan (eru ennþá við rannsóknir). Bráðabirgða niðurstöður sýna að magn makríls í íslenskri landhelgi er mun minna en verið hefur undanfarin ár. Eins mældist minna af kolmunna í ár samanborið við fyrri ár meðan að magn síldar er álíka og undanfarin ár. Í leiðangrinum voru einnig merkt alls 403 hrognkelsi.
Auk rannsókna á uppsjávarvistkerfinu var umfangsmikil sýnasöfnun úr miðsjávarlögum hafsins suður af Íslandi fyrir tvö alþjóðleg rannsóknaverkefni sem Hafrannsóknastofnun tekur þátt í, SUMMER (https://summerh2020.eu/) og MEESO (https://www.meeso.org/). Það eru bundnar vonir við það að þessi verkefni eigi eftir að skila nýrri og mikilsverðri þekkingu á miðsjávarlífríki Íslandsdjúps og Irminger hafs.
Veður voru óhagstæðari til rannsókna þetta sumarið en áður og höfðu ölduhæð og vindur þannig áhrif á rannsóknirnar í 10 af 28 dögum leiðangursins.
Gögn frá skipunum sex sem taka þátt í leiðangrinum verða tekin saman og greind upp úr miðjum ágúst og niðurstöður þeirrar vinnu síðan kynntar undir lok ágúst.
Mynd og heimild/ Hafrannsóknarstofnun