Minningarmót um Gunnar I. Birgisson var haldið á Siglufirði um helgina þar sem yfir 100 bridgespilarar mættu galvaskir til leiks segir Birkir Jón Jónsson á facebooksíðu sinni.
Segir hann að Gunnar Birgisson hafi sett á fót alþjóðlega bridgehátíð, Northern Lights Bridge Festival, sem haldin var ár hvert á Sigló. Umgjörð mótsins var alla tíð hin glæsilegasta með veglegustu vinningum sem um getur hér á landi. Það var allt stórt sem Gunnar gerði.
Gunnar var hvergi nærri hættur þegar hann féll frá með sviplegum hætti fyrir rúmu ári.
Bridgehátíðin var haldin í minningu hans enda hafði hann undirbúið og fjármagnað mótið.
Karólína Sigurjónsdóttir, Kristín Bogadóttir, Sigrún Björnsdóttir og Gunna Bína Ólafsdóttir sáu að vanda um undirbúning mótsins og þjónuðu keppendum af alúð. Hafi þær kæra þökk fyrir.
Mótinu lauk í blíðskaparveðri þar sem náttúran skartaði sínu fegursta.
Blessuð sé minning Gunnars Inga Birgissonar segir Birkir Jón að lokum.
Myndir/ Birkir Jón Jónsson