Krapi, snjóþekja eða hálkublettir eru víða á vegum á Norðurlandi.
Í Ólafsfjarðarmúla er möguleg snjóflóðahætta í dag og fram á miðvikudag.
Veðurhorfur á landinu
Norðan og norðvestan 13-23 m/s, hvassast fyrir austan. Slydda eða rigning nærri sjávarmáli og snjókoma inn til landsins, en úrkomulítið sunnantil og við vesturströndina. Dregur smám saman úr vindi vestanlands á morgun.
Hiti 0 til 4 stig á Norður- og Austurlandi, en að 10 stigum sunnan- og vestantil.
Spá gerð: 04.06.2024 10:03. Gildir til: 06.06.2024 00:00.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á fimmtudag:
Norðvestan og norðan 13-20 m/s. Þurrt að kalla sunnantil, annars slydda, rigning eða snjókoma. Hiti 2 til 10 stig, mildast á Suðausturlandi.
Á föstudag:
Minnkandi norðanátt, 5-13 um kvöldið. Skúrir eða él, en bjartviðri sunnanlands. Hiti 3 til 12 stig, mildast syðst
Á laugardag:
Norðvestan 5-10 og dálítil slydda af og til fyrir norðan en bjart með köflum um landið suðvestanvert. Hiti breytist lítið.
Á sunnudag:
Fremur hæg breytileg átt og rofar víða til. Hiti 5 til 13 stig, svalast norðaustantil.
Á mánudag:
Útlit fyrir suðlæga átt og fer að rigna á Suður- og Vesturlandi, en úrkomulítið norðaustanlands. Hlýnar í veðri.
Spá gerð: 04.06.2024 08:30. Gildir til: 11.06.2024 12:00.
Hugleiðingar veðurfræðings
Nú þegar þetta er skrifað í morgunsárið er voldug 976 mb lægð stödd norðaustur af landinu, miðja hennar er um 350 km norðaustur af Langanesi. Lægðin þokast til suðurs í dag og færist því nær okkur, en á móti kemur að lægðin er hætt að dýpka.
Þessi mikla lægð beinir til okkar köldu lofti úr norðri, það má segja að um sé að ræða leifarnar af heimskautavetrinum. Einnig er talsverð úrkoma sem fylgir lægðinni. Á vefmyndavélum má sjá að það hefur snjóað nokkuð drjúgt í nótt á Norður- og Austurlandi, jafnvel niður að sjávarmáli á sumum stöðum. Auk þessa er hvass norðan vindstrengur yfir stærstum hluta landsins, það er helst að vestasti hluti landsins hafi sloppið skást enn sem komið er, en þar á væntanlega eftir að hvessa þegar líður á morguninn.
Það þarf vart að taka það fram að hér er um að ræða mjög óvenjulegt veður á þessum árstíma, bæði hvað varðar vindstyrk og einnig lágt hitastig samfara mikilli úrkomu á norðanverðu landinu. Einnig gefa spár til kynna að illviðrið verði sérlega langvinnt, í grófum dráttum gera spár ráð fyrir að óveðrið standi linnulítið út fimmtudag, en aðfaranótt föstudags er útlit fyrir að veður skáni svo um munar.
Spá gerð: 04.06.2024 05:44. Gildir til: 05.06.2024 00:00.
Heimild/Veðurstofan og Vegagerðin