Stjórnvöld, í samstarfi við Háskólann í Reykjavík og Háskóla Íslands, hafa opnað 30 klukkustunda vefnámskeið um gervigreind sem er opið öllum almenningi. Markmið þess er að gera þekkingu á gervigreind aðgengilega fyrir alla svo fólk finni kraft og tækifæri í nýrri tækni og styrkja starfsmöguleika og starfshæfni Íslendinga. Ráðuneyti Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, og Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra, standa á bak við verkefnið ásamt háskólunum tveimur.
Námskeiðið er á íslensku, að finnskri fyrirmynd, og í sex hlutum sem einstaklingar geta tekið þegar þeim hentar, hvort sem er í tölvu eða síma, en það er hannað til að vera aðgengilegt óháð aldri, starfsreynslu eða öðru.
Ísland verður stafrænna með hverjum degi og því mikilvægt að fólk búi yfir skilningi og færni til að hagnýta nýja tækni en markmið námskeiðsins er meðal annars að stuðla að því.
Með verkefnastofunni Stafrænu Íslandi hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu er þannig unnið að því að gjörbreyta samskiptum og viðmóti hins opinbera. Rafræn ökuskírteini, þinglýsingar, fæðingarorlofsumsóknir og stafrænt pósthólf eru nokkur dæmi af mörgum nýjungum sem hafa verið innleiddar eða eru í vinnslu á þessu sviði.