Á nýárskvöld kl. 21:00 frumflytur FM Trölli söguna Náttúrubarnið eftir Láru Stefánsdóttur, höfundur les.
Upphaf sögunnar má rekja til þess þegar Lára var að ferðast með elsta barnabarninu Hrafnhildi Láru sem leiddist og Lára ákvað að búa til handa henni sögu.
Aðal söguhetjan var látin heita í höfuðið á Hrafnhildi Láru sem var svo spennt að hún suðaði stöðugt í ömmu sinni að fá meira af sögunni. Tíminn leið og sagan einhvernvegin spannst áfram. Nokkrum árum síðar var næstu tveimur barnabörnum sögð sagan sem brugðust eins við og síðan hefur verið stöðugt beðið um meira af sögunni.
Einhvern tímann ákvað Lára að líklega þyrfti að skrifa söguna niður svo barnabörnin hefðu hana en amstur hversdagsins hefur truflað það en fyrsti kaflinn eða hlutinn af þremur sem til eru hefur verið skráður og lesinn upp.
Auk þess hefur Lára gert teikningar fyrir söguna, ferðast um landið til að taka ljósmyndir sem passa inn, samið lög og unnið með Alkistis Terzi kvikmyndakonu að einni útgáfu af skilningi á sögunni í kvikmynd. Sú mynd var sýnd í Tjarnarborg á Skammdegishátíð árið 2017.
Enginn sérstakur endir eða afurð er á döfinni varðandi söguna, hún er áhugamál og Lára stússast við hana þegar þannig liggur á henni.