Nú er allt komið í fullan gang í Menntaskólanum á Tröllaskaga eftir sumarleyfi. Kennarar eru við undirbúning náms en starfsfólk skrifstofu og stjórnendur eru mættir í hús til að vinna að sínum undirbúningi.

Fyrst fá kennarar námskeið styrkt af Erasmus+ 15. og 16. ágúst um sköpunarþjálfun en Søren Hansen prófessor við Álaborgarháskóla kemur og kennir.

Veturinn verður viðburðaríkur og margt spennandi framundan, margir erlendir gestir koma ásamt því að nemendur og kennarar verða á faraldsfæti. 

Þá kemur heimsókn þátttakenda í verkefni sem kallast TrinE, Telerobotics in Education og koma gestir frá Möltu, Austurríki, Þýskalandi, Grikklandi og Akureyri. Verkefnið fjallar um nærverurnar okkar, hvernig þær eru notaðar í kennslu.

Þá koma gestir frá endurmenntunarstofnun kennara CEP frá Lanzarote til að kynna sér náms- og kennsluaðferðir okkar. Þá tekur við vinnufundur í verkefni sem kallast “Actice citizenship and democratic participation”, mjög spennandi verkefni sem verið er að skilgreina nánar.

Síðan koma kennarar frá Póllandi en kennarar MTR hafa verið að leiðbeina þeim í verkefni sem kallast “Connected Learning – popularization of international and intercultural cooperation of students online, developing skills of the 21st century”. Þá koma nemendur frá Lanzarote og Ítalíu til MTR í verkefni um mat og menningu, nemendum gefst kostur á að fara í sirkusskóla til Brussel í miðannarviku og einnig að fara til Lanzarote í verkefnið um mat og menningu.

Þessi verkefni eru styrkt af Evrópusambandinu í Erasmus+ verkefninu, EFTA um samstarf við lönd í austanverðri Evrópu og síðan Nordplus sem er á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar. 

Margt fleira spennandi er á döfinni. Þetta verður skemmtilegur vetur.