Fjórir nemendur Menntaskólans á Tröllaskaga sluppu ómeiddir úr bílveltu á afleggjaranum að Hauganesi í gærmorgun.
Mikil hálka og hvassviðri var á staðnum. Bíllinn var á lítilli ferð og endaði á hvolfi utan vegar
Nemendurnir voru á leið til Akureyrar til að keppa í spurningakeppninni Gettu betur og hugðust vera á undan veðrinu. Að sögn lögreglu var það vindhviða sem feykti bílnum út af veginum með fyrrgreindum afleiðingum.
Ökumaður og farþegar komust sjálf út úr bílnum og létu vita af sér.
Eins og fyrr segir áttu nemendurnir að keppa við Kvennaskólann í Gettu betur í gærkvöld. Þeirri viðureign hefur verið frestað til miðvikudags og voru stjórnendur keppninnar hjá RÚV og keppnislið Kvennaskólans fljót að bregðast við af tillitsemi og breyta áætlunum sínum.