Á 739. fundi bæjarráðs fjallabyggðar var lagt fram til upplýsingar erindi Önnu M. Guðlaugsdóttur f.h. sóknarnefndar Ólafsfjarðarprestakalls er varðar ósk um viðræður við sveitarfélagið varðandi nýjan kirkjugarð í Ólafsfirði.
„Hér er takmarkið, kristnu menn! Hér er sá þröskuldur er vér verðum að stíga yfir til að geta komist heim til vors rétta föðurlands. Hingað stefna öll vor fótmál hvort sem vegur vor er blómstrum eða þyrnum stráður. Hér mætast vorir margvíslegu vegir, hér koma þeir saman í dauðans dimma dal og skiljast fyrst aftur hinum megin grafarinnar, til hægri og vinstri.“
Þannig hljóðuðu upphafsorð séra Helga Árnasonar þegar hann vígði nýjan kirkjugarð, sem hann kallaði „hlið himinsins“, í Ólafsfjarðarkauptúni fyrir rúmlega einni öld, mánudaginn 20. desember 1915: „Ég helga þennan umgirta reit og skil hann frá öllum veraldlegum glaumi.“
Daginn áður vígði hann Ólafsfjarðarkirkju, á síðasta sunnudegi í aðventu 1915.
Sjá frekari upplýsingar um kirkjugarð Ólafsfirðinga á vefsíðunni sysl.is.