Það hefur hingað til ekki verið auðvelt fyrir marga þá sem eru komnir af léttasta skeiði, að rölta spölinn frá stæðinu við flugturninn og að útsýnisskífunni sem hefur árum saman verið staðsett uppi á Álfhólnum við ósa Hólsárinnar.
Það hefur löngum þurft að komast yfir skurð, mýri og kargaþýfi á annars stuttri leið áður en að hólnum hefur verið komið og hefur aðkomuvandinn væntanlega orðið til þess að mun færri hafa notið en hefðu viljað.
Ég átti leið þarna um á dögunum, ákveðinn í að láta mig hafa það að göslast ófæruna og verða við það blautur í báða fætur eins og svo oft áður, sem hefði þá væntanlega stækkað táfýluradíusinn eitthvað tímabundið. En að þessu sinni blasti við mér alveg ný sýn, því ég gat auðveldlega gengið þurrum fótum að hólnum og upp að skífunni.
Frábært framtak, en reyndar alveg tímabært. Nú er bara eftir að hreinsa sjálfa skífuna svo að það sem þar er letrað verði læsilegt á ný.
Sjá eldri frétt á Trölla : LOFORÐIÐ LOKSINS EFNT