Nýtt áhugamannaleikfélag í Húnaþingi vestra.

Leiklist hefur löngum skipað stóran sess í menningarlífi Húnaþings vestra.

Nýlega voru tveir leikflokkar sem starfræktir hafa verið á svæðinu í tugi ára, sameinaðir í nýtt áhugamannaleikfélag sem fékk nafnið Leikflokkur Húnaþings vestra.

Fyrsti samlestur fyrir Snædrottninguna.

 

Leikfélögin sem voru og hétu báru nöfnin Leikflokkur Hvammstanga og Leikdeild umf. Grettis. Leikflokkur Hvammstanga hafði aðstöðu í Félagsheimli Hvammstanga og umf. Grettir stóð á sínum tíma fyrir byggingu félagsheimilisins Ásbyrgis á Laugarbakka.

Leiklistarstarf og tónlistarlíf hefur alltaf verið virkilega blómlegt í Húnaþingi vestra. Leiklistarstarfið hafði hinsvegar legið örlítið niðri, eða þar til bæði drífandi áhugafólk og fagfólk flutti í sveitarfélagið, þá fór boltinn að rúlla.

Frá æfingu á Snædrottningunni – Krummi og Gerða.

 

Árið 2015 var sett upp leikritið Öfugu megin uppí eftir Derek Benfield af leikdeild umf. Grettis í Ásbyrgi, árið 2016 sameinuðu leikfélögin krafta sína, tjölduðu öllu til og settu upp söngleikinn Súperstar sem uppskar mjög góðar viðtökur, gestir á sýningarnar voru um 900 sem hlýtur að teljast til afreks í 1200 manna samfélagi.

Frá æfingu á Snædrottningunni, Greta Clough leikstjóri á miðri mynd.

 

2017 setti Leikflokkur Hvammstanga upp leikritið Hérumbil, Húnaþingi, sem á frummálinu heitir Almost, Maine, það er í fyrsta skipti sem það leikrit er sett upp á Íslandi, en það hefur verið sett upp af 70 atvinnuleikfélögum og yfir 2500 áhugamannaleikfélögum, mest vestanhafs.

Í september 2018 var svo ákveðið að sameina félögin í eitt; Leikflokkur Húnaþings vestra sem hefur bækistöð í Félagsheimilinu Hvammstanga. Stjórnina skipa Ingibjörg Jónsdóttir, Hörður Gylfason, Svava Lilja Magnúsdóttir, Þorleifur Karl Eggertsson og Kristín Guðmundsdóttir.

Fyrsta verk sameinaðs leikflokks er að setja upp ævintýri H. C Andersen, Snædrottninguna. Leikstjóri er Greta Clough.

Greta er leikkona, leikstóri og listrænn stjórnandi Handbendi brúðuleikhúss. Hún hefur verið tilnefnd til og unnið mörg alþjóðleg verðlaun og er mikill fengur fyrir samfélagið í Húnaþingi vestra.

Snædrottningin fjallar um Gerðu og Kára, sem eru bestu vinir. Kári er munaðarlaus en býr hjá Gerðu og ömmu hennar. Hann hefur alltaf saknað móður sinnar en þegar hann hittir Snædrottninguna einn daginn fær hann á tilfinninguna að þar sé móðir hans kannski komin og fer með henni þrátt fyrir að vita betur. Snædrottningin kastar á hann álögum og fer með hann í íshöll sína. Gerða, sem er hugrökk, góð og umfram allt snjöll er staðráðin í að finna Kára og fer í ótrúlegt ferðalag á láði og legi einmitt til þess.

Æfingar fyrir Snædrottninguna eru hafnar af fullum krafti, og verður frumsýnt þann 7.desember kl 19:00 í Félagsheimilinu á Hvammstanga. Einnig eru sýningar þann 8. og 9. desember, nánari upplýsingar á nýjum vef Leikflokksins, www.leikflokkurinn.is  Þar er einnig hægt að kaupa miða.

Um páskana 2019 er stefnt á annan söngleik, að þessu sinni Hárið, upphaflega eftir James Rado og Gerome Ragni, sem leikstýrt verður af Sigurði Líndal Þórissyni. Hingað til hefur ekki verið vandamál að fá fólk til starfa með Leikflokknum, enda nóg af leikglöðu tónlistarfólki og hefur hingað til ekki þurft að kalla til utanaðkomandi. Áhugi á leikstarfi er mikill. Í grunnskólanum er kenndur leiklistaráfangi og hefur dágóður hópur ungmenna gengið til liðs við leikflokkinn.

Í litlu samfélagi eins og Húnaþingi vestra er ómetanlegt að geta boðið uppá skapandi greinar og aðstöðu til tjáningar og sköpunar, þegar áhugi ungmenna er til staðar. Leikflokkurinn hvetur alla til þess að koma á sýninguna og upplifa töfrum hlaðið ævintýri á aðventunni. Það er hægt að fylgjast með framvindu æfinga og hvernig þetta allt kemur heim og saman á Facebook viðburðinum þeirra.

Á forsíðumyndinni er verið að æfa áhættuatriði fyrir Snædrottninguna.

Frétt og myndir: aðsent