Að kvöldi þriðjudags brá svo við að báðar helstu langtímaspárnar, ECMWF (Evrópska reiknimiðstöðin) og GFS (Ameríska spáin) sýna gjörólíka spá komandi laugardagsmorgunn.
Veðurstofan byggir sýnar staðspár á ECMWF á meðan Blika styðst við inntaksgögn úr GFS.
Hægt er að sjá á samanburðarspákortum kl. 6 á laugardag að á meðan ECMWF spáin reiknar með greinilegri lægð, NV-strekkingi og snjókomu til fjalla norðanlands, en GFS spáin ekki með neina lægð yfir höfuð. Þrýstiflatneskja yfir landinu og hvorki kalt loft né úrkoma kemur því úr norðri.
En hvernig stendur á þessum mun? Hann liggur ekki í augum uppi, en með því að rekja seg aftur á bak í leit að frávikum á milli líkananna má leita skýringa. Í það minnsta kenningu þar um.
Leitin nær til fimmtudagsins og sami kortasamanburður kl. 12 er hér að neðan. Staldra við örlítil frávik sem örin bendir á úti á miðju Atlantshafi við meginskilin, en þau sjást á yfirborðskortunum. Sjáum að til vinstri er greinileg bylgja af hlýrra lofti til norðurs. Hana er ekki að sjá á GFS kortinu til hægri. Þessi hlýja tota sem skerpir á skilunum skapar aðstæður fyrir frekari dýpkun lægðarinnar síðar meir. Þarna er hún aðeins sem lítil bylgja.
ECMWF lætur bylgjuna vaxa á leið sinni norður yfir austanvert Íslands seint á föstudag, en í hinni spánni gerist fátt á sjálfum skilunum. Stundum þarf ekki merkilegra og meira til! Á sumrin eru slíkar langar og saklausar lægðabylgjur algengar og sem ekki ná vexti.
En hvor atburðarrásin skyldi nú verða ofan á? Það gæti ráðist allt að því að tilviljun.
Heimild/Blika.is