Fulltrúar frá byggðarráði og sveitarfélaginu héldu nýlega í fræðsluferð inn á Akureyri. Þar héldu Eimur, SSNE og Íslensk Nýorka málstofuna Orkuskipti á Norðurlandi – hvað næst? Fjallað var um stöðu mála í orkuskiptum á Norðurlandi, olíunotkun svæðisins var kynnt ásamt sérstakri umfjöllun um orkuskipti í þungaflutningum og við hafnir.

,,Orkuskipti eru ein mikilvægasta aðgerðin í loftslagsmálum í dag. Hið opinbera og sveitarfélög verða að taka sig á svo við náum að snúa frá olíu- og bensínnotkuninni og í aðra umhverfisvænni orkugjafa. Við í Þingeyjarsveit erum vel sett og höfum gert margt gott, en þurfum samt að herða okkur í uppbyggingu á hleðslustöðvum fyrir fólksbíla. Á ráðstefnunni kom t.d. fram að nauðsynlegt sé að bæta verulega í þegar kemur að vöruflutningabifreiðum og rútum. Við látum okkar ekki eftir liggja í þessu sem öðru og tökum fullan þátt í þessu verkefni með stjórnvöldum og orkufyrirtækjum.” segir Ingimar Ingimarsson, sviðsstjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs.

Ingimar hefur verið að kynna sér orkuskipti í samstarfi við Eim og hefur Eimur í gegnum verkefnið RECET, sem styrkt er af Evrópusambandinu boðið fulltrúum frá fjórum sveitarfélögum á Norðurlandi eystra sem vinna í umhverfismálum að taka þátt í vinnustofu á Samsö sem fer fram nú í mars. Einnig munu fulltrúar frá Vestfjörðum, Íslenskri Nýorku, Orkustofnun ofl. taka þátt í vinnustofunni.

Forsíðumynd/Jóna Björg, Ragnheiður Jóna, Ingimar og Knútur Emil á málstofunni.