Mikið verður um að vera á Siglufirði um Hvítasunnuhelgina. Alþýðuhúsið stendur fyrir mikilli listahátíð eins og sjá má hér.
Örlygur Kristfinnsson verður með vinnustofusýningu í Söluturninum við Aðalgötu í þrjá daga, 29.-31. maí kl 15-17.
Örlygur stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1969-73, var myndlistarkennari í Grunnskóla Siglufjarðar í 20 ár og safnstjóri Síldarminjasafns Íslands önnur 20 ár.
Uppistaðan í sýningunni er vatnslitamyndir um líf og dauða geirfuglsins.
Talið er að gríðarfjöldi geirfugla hafi verið í Norðurhöfum á fyrri tíð – milljónir þessara glæsilegu fugla – ófleygir í lofti en sérhæfðir í að fljúga um hafdjúpin á sínum stuttum vængjum til fiskveiða. Síðustu geirfuglarnir á Jörðinni voru drepnir í Eldey 3. júní 1844.
Sorgarsagan um útrýmingu geirfuglsins er ekki einsdæmi um viðskipti manna og fugla. Upphafið er fæðuöflun frumstæðra þjóðflokka, oft hófleg í byrjun. Síðan tekur við skipulögð fullnýting bæði beint til matar og sem söluvarningur samfara aukinni iðnvæðingu, – og að lokum þegar fuglategundin er að verða fágæt, verða síðustu fuglarnir og egg þeirra söfnunargleði mannanna að bráð.
(Hjálmar R. Bárðarson: Fuglar Íslands 2. útg. 1986 – bls. 26)
Aðsent.