Á undanförnum vikum hefur Sveitarfélagið Skagafjörður unnið að tillögum til viðspyrnu fyrir samfélagið vegna þeirra áhrifa sem Covid-19 veiran hefur haft í för með sér.

Tillögurnar hafa verið ræddar og mótaðar í góðri samvinnu allra flokka í byggðarráði sveitarfélagsins síðan í mars síðast liðnum og hafa sumar þeirra þegar komið til framkvæmda. 

Um er að ræða umfangsmiklar aðgerðir sem snerta fjölmörg svið samfélagsins. Má þar nefna stuðningsaðgerðir við heimili, fyrirtæki og félagasamtök, aðgerðir til örvunar fasteignamarkaðs, fjölgun starfa – tímabundinna sem varanlegra, auknar fjárfestingar ásamt fjölda annarra uppbyggingaráforma á vegum sveitarfélagsins, ríkisins og einkaaðila á árunum 2020-2021. Þá hafa á vettvangi Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra verið veittar 50 m.kr. til sérstakra átaksverkefna vegna áhrifa Covid-19.

Sveitarfélagið Skagafjörður hefur þegar samþykkt fjárveitingar til fjárfestinga og viðhalds á árinu 2020 að upphæð ríflega 500 m.kr. Að auki er sveitarfélagið reiðubúið að auka við þær framkvæmdir um allt að ríflega 180 m.kr. sem innspýtingu inn í hagkerfið á svæðinu. Hluti þessara fjárfestinga er vegna hlutdeildar sveitarfélagins í samvinnuverkefnum með ríkinu en áætlaðar framkvæmdir ríkisins í Skagafirði á árinu 2020 nema um 2,5 milljörðum króna. Stærstu verkefnin þar eru framkvæmdir á vegum Landsnets og Rarik í tengslum við Sauðárkrókslínu 2 og framkvæmdir á vegum Vegagerðarinnar í höfnum og sjóvörnum á Sauðárkróki og Hofsósi. Samtals nema fjárfestingar sveitarfélagsins og ríkisins á svæðinu á árinu 2020 því um 3,2 milljörðum króna.

Til þess að efla atvinnu á svæðinu, auka fjölbreytni hennar enn frekar og fjölga atvinnutækifærum, skrifuðu iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og sveitarstjóri Sveitarfélagsins Skagafjarðar fyrr í vikunni undir viljayfirlýsingu um uppbyggingu koltrefjaframleiðslu í Skagafirði. Samræmist viljayfirlýsingin stefnu stjórnvalda um eflingu nýfjárfestingar í íslensku atvinnulífi og samkeppnishæfni Íslands á sviði nýfjárfestingar, sérstaklega á dreifbýlum svæðum líkt og á Norðurlandi vestra.

Meðal mikilvægra framkvæmda sem framundan eru má einnig nefna uppbyggingu íbúðar- og leiguhúsnæðis en fyrirhuguð er uppbygging allt að 30 íbúða á Sauðárkróki og í Fljótum á næstu mánuðum, auk þess sem unnið er að undirbúningi 40-80 íbúða til viðbótar á komandi misserum. 

Á vegum Sveitarfélagsins Skagafjarðar verða sköpuð um 140 störf nú í sumar en einnig munu verða auglýst um 20 ný sumarstörf í tengslum við ævintýrabúðir Reykjadals í Háholti í Skagafirði. Þá hefur félags- og barnamálaráðherra tilkynnt 8 ný varanleg störf hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun á Sauðárkróki.

Með þessum aðgerðum til viðspyrnu vonast sveitarfélagið til þess að draga úr þeim áhrifum sem afleiðingar Covid-19 hafa haft á skagfirskt samfélag og snúa vörn í sókn með velferð íbúa að leiðarljósi og enn frekari styrkingu samkeppnisfærni þess þegar kemur að búsetu, atvinnu og vellíðan íbúanna.

Sjá einnig skagafjordur.is