Ostafyllt buff með rjómasósu

  • ca 500 gr nautahakk
  • ca 500 gr svínahakk
  • 1 egg
  • 1 dl rjómi
  • nýmalaður svartur pipar
  • 1 tsk timjan
  • 150 gr góður ostur, t.d. gráðostur eða hvítmygluostur (það þykir gott að nota Ljúfling)

Sósa

  • 4 dl rjómi
  • 1 dl vatn
  • 1-2 grænmetisteningar
  • ca 1-2 tsk rifsberjasulta
  • hvítur pipar

Blandið vel saman nautahakki, svínahakki, eggi, rjóma, pipar og timjan (ég nota K-ið á hrærivélinni en það má vel gera þetta í höndunum). Mótið 9 buff og gerið holu í miðjuna á þeim. Skerið ostinn í bita, stingið þeim í holurnar og lokið vel fyrir.

Hitið smjör á pönnu og steikið buffin við miðlungshita. Steikið buffin í tveimur umgöngum í 2-3 mínútur á hvorri hlið. Það á ekki að fullsteikja buffin. Hafið engar áhyggjur ef einhver ostur læðist úr þeim, það gerir sósuna bara betri. Þegar buffin hafa verið steikt eru þau lögð til hliðar og gerð sósa úr steikarsoðinu. Hellið rjóma, vatni og grænmetisteningi á pönnuna og látið suðuna koma upp.

Smakkið til með rifsberjasultu, hvítum pipar og grænmetiskrafti. Setjið buffin aftur á pönnuna og látið þau sjóða við vægan hita í sósunni í nokkrar mínútur eða þar til þau eru tilbúin. Hræra smá Maizena út í sósuna í lokin til að þykkja hana.

Gott er að bera réttinn fram með soðnum kartöflum, salati og rifsberjasultu sem er æðislega góð með.

Uppskrift: Ljúfmeti og lekkerheit