Eftir viðamiklar endurbætur á húsinu verður “Ólafsfjarðarstofa”  efri hæð Pálshúss formlega opnuð þann 1. ágúst kl. 13:30.  

Á sama tíma opna Sigtryggur Bjarni Baldvinsson myndlistarmaður og Tinna Gunnarsdóttir vöruhönnuður samsýninguna “Hljómur úr firði – Litir frá J.S.Bach”  í sýningarsalnum.   

Verk þeirra beggja miða að því að miðla hrynjanda, litum og formum úr ólíkum uppsprettum. 

Verk Tinnu eru unnin upp úr landslagi Héðinsfjarðar þar sem taktur eða tif náttúrunnar er myndgert og miðlað í myndbandsverkum.  Verk Tinnu eru hluti af doktorsrannsókn hennar, Snert á landslagi, sem hún vinnur við Háskóla Íslands.

Verki Sigtryggs má lýsa sem þrívíðu málverki. Þar freistar listamaðurinn þess að draga fram liti 6. sellósvítu Bachs og myndgera. Verkið tengist tilraunakenndri litafræðikennslu Sigtryggs við Sjónlistadeild Myndlistaskóla Reykjavíkur þar sem tengsl tónlistar og lita eru könnuð. Samstarfsaðili Sigtryggs er Ólöf Sigursveinsdóttir sellóleikari.

Sigtryggur Bjarni Baldvinsson er fæddur á Akureyri árið 1966. Hann stundaði nám í Myndlistaskólanum á Akureyri, Myndlistar- og handíðaskóla Íslands og lauk framhaldsnámi frá École des Arts Decoratifs í Strassborg í Frakklandi.

Sigtryggur hefur í málverkum, ljósmyndum og vatnslita-myndum gert afmörkuðum náttúrufyrirbrigðum skil. Vatnsfletir hafa verið leiðandi stef í verkum hans, straumvatn og haffletir sem endurspegla hinar höfuðskepnurnar, ljós, loft og jörð og einstaka krafta náttúrunnar svo sem vind og þyngdarafl. Sigtryggur hefur einnig reynt að skýra og draga fram uppbyggingu eða niðurröðun hlutanna í heiminum meðal annars með myndum af blómabrekkum og laufskrúði trjáa. Spurningar, um erindi nútímamannsins út í ósnortna náttúru og ábyrgð mannsins gagnvart henni, marka nú vinnu listamannsins með vaxandi þunga.

Á sýningunni í Pálshúsi nálgast Sigtryggur hins vegar náttúru tónlistarinnar og dregur liti upp úr tónsmíð Bachs, 6. Sellósvítunni og formgerir í stóru  þrívíðu málverki.

Verk Sigtryggs hafa verið sýnd á einkasýningum og samsýningum á helstu söfnum hérlendis. Einkasýningarnar eru orðnar vel á fjórða tug. Verk hans eru í eigu Listasafns Íslands, Listasafns Reykjavíkur, Listasafns Háskóla Íslands, Listasafnsins á Akureyri, Listasafns Reykjanesbæjar, Hæstaréttar Íslands, Landspítalans og Gerðarsafns og ýmissa fyrirtækja og einkaaðila. Sigtryggur hefur kennt við Listaháskóla Íslands, Myndlistaskólann í Reykjavík, Myndlistaskóla Kópavogs og Myndlistaskólann á Akureyri.  Sigtryggur sat í safnráði Listasafns Íslands um fjögurra ára skeið.

Tinna Gunnarsdóttir (f. 1968) er vöruhönnuður og prófessor við Hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands. www.tinnagunnarsdottir.is

Tinna nýtir hönnunarrannsóknir og nytjahluti hversdagsins til að skoða umhverfi sitt, hvort sem það varðar einkarými heimilisins eða í náttúrulegu samhengi. Hún setur efni og tækni í óvæntar aðstæður og skapar þannig fersk sjónarhorn, útvíkkaða upplifun, skemmtilega brenglað samhengi. Íslensk landslag hefur haft stór áhrif á meðvitund hennar og rýmisskilning en þeim miðlar hún í gegnum efnislæga hluti.

Menntun:
2016 hóf Tinna doktorsnám í menningarfræði við Hugvísindasvið Háskóla Íslands.
2013-2014 MRes, University of Brighton, Bretland.
1997  MA gráða í iðnhönnun frá Domus Academy, Ítalía.
1989-92 BA gráða í þrívíðri hönnun frá  WSCAD, Bretland.
1988-89 Fornám í list og hönnun frá Brighton Polytechnic, Bretland.

Starfsferill:
Tinna hefur unnið sem sjálfstætt starfandi hönnuður á Íslandi frá 1992. Hún stofnaði Gallerí Greip árið 1993 og rak til ársloka 1996 og ör-galleríið Barm frá 1996-1998. Tinna hefur kennt hönnun á Íslandi frá 1999, fyrst sem stundakennari við Myndlistaskólann í Reykjavík og síðar við Listaháskóla Íslands.  Hún hefur komið að fjölda alþjóðlegra samstarfsverkefna, þeirra á meðal: Konnect, samstarfsverkefni HÍ og LHÍ við háskóla á Norðurlöndunum með það að markmiði að leiða saman listamenn og vísindamenn í þeim tilgangi að vinna verkefni á sviði sjálfbærni og leita nýrra leiða til að bregðast við umhverfisvandanum (2015-17), Cirrus: Traditions and innovations, samstarfsverkefni LHÍ um sjálfbæra þróun hráefna í samstarfi við háskólann í Lapplandi og Listaháskólann í Tallin (2015-17), CLEVER, samstarfsverkefni 14 háskóla og stofnana í Evrópu og Ísrael þar sem fjallað var um kerfislæga eflingu skapandi greina (2015-2019). Tinna hefur hlotið fjölda opinberra styrkja, þeirra á meðal frá Rannís (2020, 2015, 2012, 2006-8, 2003, 2002),  Náttúruverndarsjóði Pálma (2019), Watanabe Trust Fund (2019) og Skipulagsstofnun (2017).

Tinna hefur tekið þátt fjölda erlendra og innlendra sýninga, þeirra á meðal: Efni:viður, Hafnarborg (2020), Crossover, London Design Fair (2019), Now Nordic, Chart Design Fair, Kaupmannahöfn og London Design Fair, London (2018), Dæmisögur: vöruhönnun á 21. Öld, Listasafn Reykjavíkur (2017), Mellom himmel og fjord, Kunstlandskap Hardanger,Noregi (2015), We sleep here, Stockholm Furniture Fair, Stokkhólmur (2015), Nordic cool festival, The Kennedy Center, Washington DC, USA (2013), Everyday Discoveries, Suvilahti, World Design Capital Helsinki (2012), On the cutting edge, design in Iceland, Museum für Angewandte Kunst, Frankfurt (2011), Náttúran í hönnun, Ljósafossstöð (2010), Íslensk hönnun 2009, Listasafn Reykjavíkur (2009), Dansk Design Center (2009), Expo Sjanghæ (2010), Stockholm Furniture Fair (2011), Estonian Museum of Applied Art and Design (2011), Made in Iceland, Design Week Helsinki og Disainiöö Tallin (2008), Gwangju Design Biennale, Gwangju, Kórea (2007), Kvika/Magma, Listasafn Reykjavikur (2007), Iceland Cometh, ICFF, New York, USA (2007), 3d Talents, IMMCologne Furniture Fair, Germany (2007), Eden ADN, Biennale Internationale Desing Saint-Étienne, Frakklandi (2006), Rubber mats, Giftex, Tokyo (2006), Moli, Salone Satellite, Mílanó (2006), Swedish Style, Townhouse 12, Mílano og Tokyo Design Week (2005), Rubber leafs and lava slabs, Norræni skálinn á EXPO 2005, Japan (2005), Vík, Stockholm Furniture Fair, Svíþjóð (2005), Northern Lights, new scandinavian designers selected by Harri Koskinen, MDS gallery (The Issey Miyake Foundation), Tokyo (2004), Nordic Cool: hot women designers, The National Museum of Women in the Arts, Washington, U.S.A. (2004), Scaninavian Design Beyond the Myth, Kunstgewerbemuseum, Berlín og víðar (2003 – 2008), design.is, Samnorræna húsið í Berlín, Berlín (2003), Utopia and Reality, Kunstindustrimuseet, Kaupmannahöfn (2002-2007), Rolling stones, Salone Satellite, Mílanó (2002), Stool in the box, Salone Satellite, Mílanó (2001), Young Nordic Designers, Scandinavian House, New York og víðar (2000-2003).

Mynd: Pálshús Ólafsfirði