Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson sæmdi Petter Jonny Rivedal fálkaorðu fyrir framlag til varðveislu íslensks menningararfs.

Petter Jonny hefur um árabil haft umsjón með styttunni af Ingólfi Arnarsyni og umhverfi hennar í Hrífudal í Noregi. Þar hefur hann gegnum árin tekið á móti fjölda íslenskra ráðamanna, sendiherra og annarra sem heimsótt hafa styttuna, heiðrað minningu Ingólfs og haldið á lofti sögulegum tengslum Íslands og Noregs.

Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson og Petter Jonny Rivedal

Petter Jonny er nú staddur á Íslandi í fyrsta sinn, til að afhenda síðustu síldartunnuna Síldarminjasafni Íslands á Siglufirði. Tunnan sem um ræðir féll frá borði Suðurlands, síðasta flutningaskipsins sem náði fram til Íslands fullfermt nýsmíðuðum tunnum frá Dale árið 1986.

Petter Jonny bjargaði tunnunni þegar hana rak á land við Hrífudal, handan fjarðarins við Dale, og hefur hann varðveitt hana á heimili sínu síðan, nú í nær fjóra áratugi. Tunnan verður afhent Síldarminjasafninu 31. maí og markar það tímamót í sögu Íslands og Noregs.

Síðasta síldartunnan afhent á morgun

Myndir/forseti.is